Framkvæmdasumri tekið að halla

Horft yfir snyrtilega Hafnargötu á fallegum sumardegi.
Horft yfir snyrtilega Hafnargötu á fallegum sumardegi.

Í dag, mánudaginn 22. ágúst, streyma þúsundir nemenda og starfsfólks til skólasetningar í 6 grunnskólum Reykjanesbæja vonandi eftir gott sumarfrí. Margvíslegar framkvæmdir og lagfæringar hafa farið fram í húsnæði skólanna í sumar. Nokkur hundruð börn eru einnig mætt í leikskólana að loknu sumarleyfi. Því er ástæða til að minna alla á kynna sér leiðir skólabarna í grunnskóla, hvort sem þau ætla að ganga eða hjóla, og hvetja börnin til að nota endurskinsmerki og hjálma. Einnig viljum við minna ökumenn á að aka varlega í skólahverfum þar sem nýgræðingar eru í umferðinni.

Talsvert hefur verið unnið í framkvæmdum og viðgerðum á ýmsum stöðum í sveitarfélaginu. Tjaldsvæðið við Víkingaheima er tilbúið og verður tekið í notkun næsta vor. Lagðir voru 1.2 km af hellum og köntum í Ásahverfi. Lóð hæfingarstöðvarinnar á Ásbrú var lagfærð auk þess sem lóð leikskólans Hjallatúns var stækkuð. Hjólaleið niður í bæ, í framhaldi af hjólastígnum frá Leifsstöð, var merkt og slætti opinna svæða sinnt eins og þurfti. Unnið er að endurbótum á Fischershúsi og verður þremur hliðum af fjórum lokið á þessu ári. Í sumar var heldur meira malbikað en áður og götur merktar með massa en ekki málningu þar sem massinn endist betur. Lýsing í völdum húsum hefur verið endurnýjuð þar sem orkufrekum ljósgjöfum hefur verið skipt út fyrir LED ljósgjafa sem eru margfalt ódýrara í rekstri.

Nú er unnið að endurbótum á bílastæðinu fyrir aftan Tjarnargötu 2. Þar er ætlunin að setja upp vel merkt stæði fyrir fatlaða, hleðslustöð fyrir rafbíla og viðgerðastand fyrir reiðhjól. Vonast er til þess að þessu verið lokið fyrir Ljósanótt.
Nokkur umræða hefur farið fram um ónæði af flugumferð. Flugvallaryfirvöld hafa verið hvött til þess að beina flugumferð sem mest um vestari enda austur-vestur brautarinnar og hafa þau gert eins vel og hægt er til þess að draga úr ónæði vegna hennar.

Reykjanesbær hefur, í samstarfi við Vegagerðina, unnið að því undanfarin ár að útrýma slysagildrum á Reykjanesbrautinni sem hafa verið greindar eftir slysatölum frá Umferðarstofu. Gott dæmi er hringtorg við Stekk sem hefur sannað gildi sitt en þau gatnamót voru ein þau hættulegustu á landinu áður en ráðist var í framkvæmdir við hringtorgið.

Tvöföldun Reykjanesbrautar á samgönguáætlun strax

Unnið hefur verið markvisst í því með Vegagerðinni að bæta öryggi vegfarenda á Reykjanesbraut og verður áfram verður haldið á þeirri braut.

Gengið hefur verið frá samningum við verktakafyrirtækið Ellert Skúlason ehf. um gerð undirgangna undir Reykjanesbraut við Hafnar-afleggjara og munu framkvæmdir hefjast fljótlega.

Brýnt er að setja tvöföldun Reykjanesbrautar strax á samgönguáætlun og hefur bæjarstjórn Reykjanesbæjar m.a. skorað á ríkisvaldið að gera það. Í millitíðinni þarf að fara tafarlaust í eftirfarandi framkvæmdir:
1. Tengja Hafnarveg við hringtorgið við Stekk (gert er ráð fyrir þessari tengingu í endurskoðun aðalskipulags Reykjanesbæjar sem nú stendur yfir)
2. Setja hringtorg við gatnamót Þjóðbrautar og Reykjanesbrautar.
3. Setja hringtorg við gatnamót Aðalgötu og Reykjanesbrautar.

Með því að fara í þessar framkvæmdir verður öllum megin slysagildrum á þessum fjölfarna vegarkafla útrýmt og öryggi vegfarenda á Reykjanesbraut stóraukið. Þá mun einnig vinnast tími til að vinna að endanlegri lausn sem er tvöföldun Reykjanesbrautarinnar.

Upphaf skólastarfsins minnir okkur á að sumarið er senn á enda og haustið, með öllum sínum skemmtilegu uppákomum og tækifærum, tekur við. Það styttist í 16. Ljósanóttina okkar og hæfileikafólk af ýmsum toga undirbýr sig nú af krafti. Fjölbreytt dagskrá er að mótast og má sjá hana á www.ljosanott.is

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri