Framkvæmdir við hringtorg á Reykjanesbraut að hefjast

Mynd frá undirritun í gær f.v. Guðlaugur H Sigurjónsson sviðsstjóri Umhverfissviðs Reykjanesbæjar, …
Mynd frá undirritun í gær f.v. Guðlaugur H Sigurjónsson sviðsstjóri Umhverfissviðs Reykjanesbæjar, Karl Andreasen frá Ístaki og Svanur Bjarnarson hjá Vegagerðinni. Þá er Isava einnig aðili að þessu verkefni en fulltrúi fyrirtækisins var ekki við undirskrift verksamnings.

Í gær var undirritaður samningur vegna framkvæmda við tvenn hringtorg á  Reykjanesbraut í sumar, annars vegar á mótum Aðalgötu og Reykjanesbrautar og hins vegar á mótum Þjóðbrautar og Reykjanesbrautar. Útboð fór fram fyrr í sumar og var verktakafyrirtækið Ístak lægstbjóðandi.

Útboð Ístaks  hljóðaði upp á rúmar tvö hundruð og fimmtán milljónir króna fyrir bæði hringtorgin. Framkvæmdir hefjast í næstu viku og eru áætluð verklok þann 15. september næstkomandi. Ökuhraði verður færður niður í 50 km á klukkustund á meðan á framkvæmdum stendur og því má búast við einhverjum töfum á þessum vegkafla í sumar.

Hringtorgin eru hönnuð sem tvöföld hringtorg og verður ytri hringur fyrst tekinn í notkun og er þá hægt að stækka hringtorgið með innri hring þegar farið verður í tvöföldun Reykjanesbrautar.