Friðrik Dór og flugeldasýning á þrettándanum í Reykjanesbæ

Þrettándaskemmtun verður með óhefðbundnu sniði í ár líkt og í fyrra í Reykjanesbæ. Gengið er út frá að fólk taki þátt í skemmtidagskránni úr bílum sínum í sóttvarnarskyni. Boðið verður upp á bílaútvarpstónleika með Friðrik Dór og flugeldasýningu auk þess sem púkar og kynjaverur verða á sveimi.

Fólk er hvatt til að koma sér tímanlega fyrir í bílum sínum og syngja árið í burtu með Frikka Dór. Tónleikarnir verða sendir út á sérstakri FM rás (FM 106,1) en einnig er hægt að hlusta á tónleikana í gegnum appið Spilarann fyrir þá sem kjósa það. Tónleikarnir hefjast kl. 19:15.

Flugeldasýningin sem fer fram á svæði við Njarðvíkurskóga á milli Reykjanesbrautar, Þjóðbrautar og Hjallavegar hefst kl. 20 og er það Björgunarsveitin Suðurnes sem á veg og vanda af henni. Gengið er út frá að bílastæði séu við enda Hjallavegar (við íþróttavallarsvæði í Njarðvík), á malarsvæði við Þjóðbraut og á vegaöxl við Reykjanesbraut (sjá skýringarmynd).

Þá má reikna með púkum og kynjaverum á sveimi um bílastæðin og því ekki verra að vera í öruggu skjóli einkabílsins þegar þeim er mætt. Nánari upplýsingar á vefsíðu og Facebooksíðu Reykjanesbæjar þegar nær dregur.

Hægt verður að leggja við enda Hjallavegar við íþróttavallarsvæði Njarðvíkur. Einnig við æfingasvæði Keflavíkur við Þjóðbraut