Furðuverusmiðja fyrir fjölskyldur og Leiðsögn Rögnu Fróða

Furðuverur
Furðuverur

Handverk og hönnun og Listasafn Reykjanesbæjar bjóða á næstunni upp á tvær mjög spennandi smiðjur og leiðsagnir í tengslum við sýninguna „Endalaust“ í Duus Safnahúsum. Sýningin inniheldur einungis verk úr endurunnum efnivið, þar sem hlutum sem annars yrði mögulega hent, er gefið nýtt og betra líf. Um er að ræða fjölbreytt og ólík viðfangsefni og alls 20 hönnuðir taka þátt í sýningunni.

Smiðjurnar sem fara fram 15. september og 6. október, eru öllum opnar, eru fyrir alla aldurshópa og aðgangur er ókeypis. Klukkan 14 þessa sömu daga verður sýningarstjórinn, Ragna Fróða, með leiðsögn um sýninguna fyrir áhugasama. Leiðsögnin er öllum opin óviðkomandi því hvort fólk tekur þátt í smiðjum.

Handaband: Furðuverusmiðja fyrir fjölskyldur

Fyrri smiðjan fer fram laugardaginn 15.september kl. 14-16 í Bíósal Duus Safnahúsa. Þátttakendur fá tækifæri til að skapa sína eigin furðuveru sem er gerð úr endurunnum textílefnum sem féllu til við framleiðslu á Íslandi. Efnin sem notuð verða koma frá Umemi, Glófa og Cintamani. Allir eru hvattir til að segja söguna af furðuverunni og leyfa öðrum að kynnast henni betur.

Gamalt verður nýtt

Síðari smiðjan er á boðstólum laugardaginn 6. október kl. 14-16 einnig í Bíósal Duus Safnahúsa. Þar mun texílhópurinn Þráðlausar bjóða uppá verksmiðju fyrir alla aldurshópa þar sem vefnaður og endurvinnsla koma saman til að gefa gömlum og gleymdum hlutum nýtt líf.

Þátttakendur fá tækifæri til að endurbæta eða breyta einum hlut sem þeir finna heima hjá sér. Stóll eða myndarammi eru tilvaldir hlutir en einnig má nota hugmyndarflugið og koma með alls konar hluti sem er hægt að vefa inní. Garn og efni verður til staðar sem notað verður til að vefa með. 

Leiðbeinendur í smiðjunni eru þær Margrét Katrín Guttormsdóttir og Ragnheiður Stefánsdóttir sem saman mynda textílhópinn Þráðlausar. 

Þær eru báðar útskrifaðar úr textíldeild Myndlistaskólans í Reykjavík og stunda nám við Listaháskólann á Íslandi í hönnunardeildinni. 

Þráðlausar vinna að því að búa til textílverk og endurbæta gömul húsgögn með vefnaði úr endurnýttum textíl.

Listasafn Reykjanesbæjar er staðsett í Duus Safnahúsum, Duusgötu 2-8. Opið alla daga frá 12-17.