Fyrsti gjalddagi fasteignagjalda í dag

Tilkynning til eigenda fasteigna um álagningu ársins 2016

Álagningarseðlar fyrir árið 2016 verða eingöngu birtir rafrænt og ekki sendir út í bréfapósti. Nú geta fasteignaeigendur nálgast álagningarseðilinn á mittreykjanes.is og á upplýsinga- og þjónustuveitunni www.island.is. Reykjanesbær mun þó áfram senda einstaklingum 67 ára og eldri álagningarseðil í pósti. Þeir sem óska eftir að fá álagningarseðilinn sendan í pósti er bent á að senda tölvupóst á netfangið thjonustuver@reykjanesbaer.is.

Gjalddagar og greiðsla fasteignagjalda

Gjalddagar fasteignagjalda eru tíu. Fyrsti gjalddagi er 25. janúar 2016 til og með 25. október 2016. Eindagi fasteignagjalda er þrjátíu dögum eftir gjalddaga og falla öll gjöld ársins í gjalddaga ef vanskil verða. Reynist heildarálögð gjöld 20.000 krónur eða lægri er gjalddagi heildargjaldanna 25. janúar 2016. Athygli er vakin á því að greiðsluseðlar vegna fasteignagjalda eru sendir út rafrænt og birtast í heimabönkum. Þeir sem vilja fá senda greiðsluseðla er bent á að senda tölvupóst á thjonustuver@reykjanesbaer.is.