Gæðastarf í góðum skóla - Hjallatún kemur vel út úr úttekt

Nýverið var gerð úttekt á leikskólanum Hjallatúni og var hún unnin á vegum Námsmatsstofnunar - fyrir mennta og menningarmálaráðuneytið.

Skólinn kom afar vel út úr úttektinni, starfið er faglegt og í góðum gæðum og er almenn ánægja meðal foreldra, starfsmanna og barna með starfsemi skólans.

Í lokaorðum skýrslunnar segir meðal annars:  Starfshópurinn vinnur sem ein heild og stefnir allur að sama markmiði og leggur áherslu á stöðuga ígrundum um starfið. Rík áhersla er lögð á að mæta öllum foreldrum og börnum af virðingu og sýna öllum hlýtt viðmót. Starfið í leikskólanum og starfsumhverfið stuðlar að alhliða námi og þroska barna og má þar sérstaklega nefna áherslu leikskólans hvað varðar börn með annað móðurmál en íslensku. Starfsmenn leggja metnað sinn í að viðhalda góðu leikskólastarfi og foreldrar eru ánægðir með starfsaðferðir skólans.

Gylfi Jón Gylfason fræðslustjóri  er að vonum ánægður með að fagleg úttekt á starfsemi leikskólans leiði í ljós að vel og faglega sé staðið að skólastarfi í Hjallatúni. Svona árangur er alls ekki sjálfsagður segir Gylfi Jón, að baki hans liggur þrotlaus vinna allra aðila í skólasamfélaginu;  Stefnan þarf að vera skýr, stjórnendur sterkir, faglegir leikskólakennarar, sterkir almennir starfsmenn og gott samstarf við foreldra.