Gera athugasemd við samanburð sveitarfélaganna

Upplýst Berg. Ljósmynd: OZZO
Upplýst Berg. Ljósmynd: OZZO

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar gera athugasemdir við samanburð Samtaka atvinnulífsins (SA) á rekstrarframmistöðu stærstu sveitarfélaganna. 

Að þeirra mati er framsetning SA á samanburði á rekstrarframmistöðu sveitarfélaga og hvernig þau standa innbyrðis út frá mismunandi rekstrarmælikvörðum ekki af  gefa rétta mynd af rekstrarstöðu sveitarfélaganna í dag.  Ef það hefur verið ætlun samtakanna að gefa mynd af því hvernig þetta hefur verið að meðaltali frá 2002  hefði það átt að koma skýrar fram.  Eins og þetta er sett fram má ætla að samantektin segi til um stöðuna í dag, sem hún gerir alls ekki.

Eftirfarandi er samantektin sem þeir tóku saman:

Athugasemdir við samanburð Samtaka atvinnulífsins á rekstrarframmistöðu stærstu sveitarfélaganna.

Gera verður alvarlegar athugasemdir við þann samanburð sem Samtök atvinnulífsins hafa gert á rekstrarframmistöðu stærstu sveitarfélaganna. Viljum við einkum gera athugasemd við eftirfarandi sem gefur alls ekki rétta mynd af raunverulegum rekstri sveitarfélaga í dag:

1) ...og þeim gefin stig fyrir innbyrðis stöðu í hverjum samanburði fyrir sig.

2) Í umfjöllun dagsins munum við bera saman rekstrarframmistöðu stærstu sveitarfélaganna og hvernig þau standa innbyrðis út frá mismunandi rekstrarmælikvörðum.

3) Þá er skattheimta og þjónusta jafnframt borin saman milli sveitarfélaga. Eðli máls samkvæmt er mikil fylgni milli rekstrar sveitarfélaga og þjónustu við íbúa. Því betri sem grunnrekstur hvers sveitarfélags er því meira svigrúm hefur hann til að bæta þjónustu við íbúa og draga úr skattheimtu.

Stigagjöf

Stigagjöfin vekur athygli.  Sveitarfélögin 12 eru borin saman innbyrðis og er gefið stig frá einum til 12 fyrir hvern mælikvarða.  Það sveitarfélag sem kemur best út í hverjum samanburði fær 12.  Ekki þarf að vera mikill munur á milli sveitarfélaga til þess að fá 12 og 1.  Þannig að stigagjöfin getur skipt miklu máli þó munurinn á milli sveitarfélaga sé lítill í einstökum mælikvörðum.

Rekstrarframmistaða sveitarfélaga og hvernig þau standa innbyrðis út frá mismunandi rekstrarmælikvörðum

Það vekur athygli að þegar rekstrarframmistaða er skoðuð er stuðst við fjóra mælikvarða af níu sem tengjast skuldum beint.  Af eðlilegum ástæðum raðast þau sveitarfélög best í þeim samanburði sem skulda minnst og fá þar af leiðandi hæstu stigin.  Eins og stigagjöfin er vegur það nokkuð þungt og því spurt hvort það sé rétt nálgun þegar er verið að skoða rekstrarframmistöðu í dag að skuldir fortíðar vegi svo þungt?

Hér má sjá mynd af töflu sem sýnir rekstrarframmistöðu tenga skuldum annars vegar og tengdum rekstri hins vegar

Eins og taflan sýnir hér að framan eru mælikvarðar sem tengjast skuldum beint að vega þungt í þessum samanburði.  Það sveitarfélag sem er að skora hæst í skuldatengdum mælikvörðum, og þá líklega með lægstu skuldirnar, fær 48 stig þ.e. fullt hús stiga fyrir þessa fjóra mælikvarða, af 71 stigi samtals.  Aðrir rekstrartengdir mælikvarðar gefa 23 stig samtals.

Til samanburðar fá skuldsett sveitarfélög af eðlilegum ástæðum lága stigagjöf fyrir alla þessa fjóra mælikvarða.  Reykjanesbær fær samtals 4 fyrir mælikvarða tengda skuldum samtals en 46 fyrir rekstrartengda mælikvarða.

Ef sveitarfélögunum er raðað upp án skuldatengdu mælikvarðanna breytist röðin nokkuð.

Hér má sjá mynd af töflu sem sýnir röðun sveitarfélaga þegar skuldtengdum mælikvörðum er sleppt

Það sveitarfélag sem kemur best út í þessum samanburði er Reykjanesbær.  Ljóst er að skuldir sveitarfélaga er uppsafnaður vandi frá fyrri árum. Sveitarfélög hafa almennt ekki verið að taka lán á undanförnum árum. Þau hafa verið að hagræða í rekstri og greiða niður skuldir. Því gefur það villandi mynd um stöðuna í dag að setja upp samanburð á þann veg sem Samtök atvinnulífsins gera.  Það vekur athygli í samantekt Samtakanna að þegar útgjöld á íbúa eru borin saman er notast við meðaltal frá 2002 til 2018.  Þá væntanlega meðaltal ársreikninga sveitarfélaganna 2002 til 2017 og fjárhagsáætlun 2018.  Þarna er breyta sem byggir ekki á sama grunni og aðrar. Einnig er ljóst að útgjöld á íbúa í upphafi þessarar aldar segir lítið til um útgjöldin í dag.  Ef það hefur verið ætlun Samtakanna að varpa ljósi á fjármálastjórn sveitarfélaganna að meðaltali frá árinu 2002  þá hefði verið rétt að láta það koma skýrt fram en ekki eins og hér hefur verið gert sem gefur fulla ástæðu til að ætla að framsetningin gefi ekki raunverulega mynd afrekstrarframmistöðu sveitarfélaganna í dag.

Góður rekstur virðist skila sér heilt yfir í lægri skattheimtu á íbúa

„Niðurstaðan leiðir í ljós að mikil fylgni er milli þess hvernig sveitarfélögin raðast í rekstrarsamanburðinum hér að ofan og því hversu hátt hlutfall af tekjum íbúa sinna þau taka til sín með skattheimtu. Þar koma í ljós hin augljósu sannindi að góður rekstur virðist skila sér heilt yfir í lægri skattheimtu á íbúa.“

Stenst þessi staðhæfing fullkomleg og gefur hún rétta mynd?  Í fyrsta lagi er sögð mikil fylgni við rekstrarsamanburðinn hér að framan, þar sem fjórir mælikvarðar af níu eru beintengdir skuldum, og því hversu hátt hlutfall af tekjum íbúa sveitarfélögintaka til sín með skattheimtu.  Er ekki nauðsynlegt þegar svona staðhæfing er sett fram að fara dýpra í málið?  Hér hlýtur skattstofninn að skipta miklu máli.   Hann vegur nokkuð þungt þegar álagningarhlutfall er skoðað.

.Hér má sjá mynd af töflu sem sýnir tekjur sveitarfélaga að frádregnum framlögum úr jöfnunarsjóði árið 2017

Taflan hér að framan sýnir tekjur sveitarfélaga að frádregnum framlögum úr jöfnunarsjóði árið 2017, þ.e. álögur samtals í sveitarfélögunum, íbúafjölda 1. janúar 2017 og tekjur á hvern íbúa.

Eins og áður  eru nokkur sætaskipti hjá sveitarfélögunum.  Reykjanesbær er með lægstu tekjur á hvern íbúa  og Hafnarfjarðarbær er í fjórða sæti.  Ætli álagningastofn hafi hér áhrif?

Fjöldi íbúa á bak við hvert stöðugildi

Hér má sjá mynd af töflu sem sýnir fjölda íbúa á bak við hvert stöðugildi

Þegar rekstur sveitarfélaga er skoðaður eru nokkrir mælikvarðar sem þarf að skoða.  Einn af þeim er fjöldi stöðugilda þar sem launakostnaður hjá sveitarfélögum er almennt um 50 til 60% af tekjum.  Taflan hér að framan sýnir fjölda stöðugilda hjá framangreindum sveitarfélögum skv. árbók sveitarfélaga 2017 og íbúafjölda í janúar 2017.  Þegar fjöldi íbúa á hvert stöðugildi er skoðað skipa Reykjanesbær og Hafnarfjarðarbær sér í annað og þriðja sæti með flesta íbúa á hvert stöðugildi.  Hér hefðu þau sveitarfélög skorað hátt.

Niðurstaða

Af framanrituðu má ljóst vera að framsetning Samtaka atvinnulífsins á samanburði á rekstrarframmistöðu sveitarfélaga og hvernig þau standa innbyrðis út frá mismunandi rekstrarmælikvörðum gefur ekki rétta mynd af rekstrarstöðu sveitarfélaganna í dag.  Ef það hefur verið ætlun samtakanna að gefa mynd af því hvernig þetta hefur verið að meðaltali frá 2002 hefði það átt að koma skýrar fram.  Eins og þetta er sett fram má ætla að samantektin segi til um stöðuna í dag, sem hún gerir alls ekki.

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar