Glæsileg aðstaða Fimleikadeildar Keflavíkur

Aðstaða fimleikadeildar í Íþróttaakademíu.
Aðstaða fimleikadeildar í Íþróttaakademíu.

Fimleikadeild Keflavíkur fékk glæsilegt húsnæði afhent í janúar 2010. Fyrir þann tíma hafði deildin aðstöðu í svokölluðum B -sal íþróttahússins við Sunnubraut. Á þeim tíma þurfti í byrjun hvers æfingatíma að taka út hvert einasta áhald og stilla því upp í salnum og í lok dags þurfti að taka allt saman aftur og setja í geymsluna.

Þetta hafði mikil áhrif á starf deildarinnar og einnig í sambandi við fjölda iðkenda, því ekki var hægt að taka inn alla sem vildu æfa fimleika þar sem plássið var af skornum skammti.

Eftir að við fengum aðstöðuna í Íþróttaakademíunni afhenta hefur margt gerst. Iðkendafjöldi hefur margfaldast, fleiri námskeið verið í boði, fjölbreyttari þjálfun, aukinn árangur og margt fleira.

Fullorðinsfimleikar eru sívinsælir þar sem gamlir iðkendur, foreldrar og aðrir sem hafa áhuga á fimleikum koma og æfa undir stjórn reyndra þjálfara.

Strákafimleikar, þar sem strákar leggja stund á áhaldafimleika, hafa verið mjög vinsælir. Fyrsti hópurinn sem hóf æfingar hjá okkur er byrjaður að keppa og stóðu sig þar með ágætum. Það eina sem okkur vantar eru 3 áhöld til þess að geta boðið strákunum upp á viðeigandi þjálfun. Þegar þessi áhöld eru komin í hús getum við farið að halda FSÍ mót.

Parkour  eða „götufimleikar“ er nýjasta æðið meðal unglingsstráka hér í bænum. Þeir koma hingað og læra að gera ýmis konar hopp, stökk og brellur sem erfitt er að lýsa með orðum.

Krakkafimleikarnir standa alltaf fyrir sínu, þar sem 2ja, 3ja og 4 ára börn stíga sín fyrstu skref í fimleikum á laugardagsmorgnum.

Við erum með tvo erlenda þjálfara þá Ardalan Nik Sima sem er áhaldaþjálfari frá Nýja Sjálandi  og Henrik frá Danmörku sem er hópfimleikaþjálfari. Þeir, ásamt okkar frábæru íslensku þjálfurum, mynda stöðuga heild sem sækir ákaft fram á við. Eftir að við fluttumst yfir í Íþróttaakademíuna hefur árangur iðkenda ekki látið standa á sér. Við erum orðin samkeppnishæf við stóru félögin á landinu. Fleiri iðkendur frá okkur eru að komast upp um þrep og eins og staðan er í dag erum við með nokkrar stelpur í hverju þrepi, þ.e. nokkrar í 1., 2. og 3. þrepi og svo fjölmargar í 4. og 5. þrepi.

Nýjung hjá okkur í ár er að stelpurnar í afrekshópunum okkar fara í ballettíma hjá Brynballet.
Það mun án efa hjálpa stelpunum okkar mikið í æfingum þeirra.

Fimleikadeildin hefur framkvæmdarstjóra í fullu starfi. Það hefur haft mikil áhrif á metnað og faglegt starf hjá deildinni. Nýr framkvæmdarstjóri var ráðinn hjá Fimleikadeild Keflavíkur nú í ágúst, en það er Eva Berglind Magnúsdóttir. Stjórn Fimleikadeildar Keflavíkur hlakkar mikið til samstarfs við Evu Berglindi, en hún hefur alist upp með fimleikadeildinni og hefur þetta sanna Keflavíkurhjarta.

Við stefnum hærra, bæði í áhaldafimleikum og hópfimleikum.

Þó nokkuð er um það  að hópar utan af landi nýta húsið til æfinga, en einnig koma hópar erlendis frá enda þykir Íþróttaakademían í Reykjanesbæ með betri fimleikahúsum á landinu. Landsliðið okkar í fimleikum kemur einnig reglulega til æfinga í okkar glæsilegu fimleikaaðstöðu.

Undanfarin 2 ár hefur menntahelgi hópfimleikana verið í okkar aðstöðu, þar sem það þykir svo frábært að geta verið með bóklegt og verklegt námskeið á sama staðnum. Ráðstefnusalurinn nýtist vel á þessum menntahelgum.
Í ljósi umræðna og frétta nýlega um að bæjaryfirvöld víða um land hafi ekki staðið sig nógu vel þegar kemur að uppbyggingu fimleikaaðstöðu, langaði okkur að vekja athygli á þeirri frábæru aðstöðu sem Fimleikadeild Keflavíkur hefur í Íþróttaakademíunni. Við erum öll þakklát fyrir þetta framtak Reykjanesbæjar og munum sýna það m.a. með því að nýta aðstöðuna eins og best verður á kosið og efla fimleikastarfið til muna á næstu árum.

F.h. Fimleikadeildar Keflavíkur
Halldóra Björk Guðmundsdóttir