Glæsilegt Nettómót í körfubolta 2013

Nettómót
Nettómót

Mig langar að koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem stóðu að undirbúningi og framkvæmd Nettómótsins í körfubolta sem fram fór í Reykjanesbæ og Garði helgina 2.-3. mars sl.

Sérstakar þakkir færi ég forstöðumönnum og starfsfólki íþróttamannvirkja bæjarins svo og forsvarsmönnum unglingaráða körfuknattleiksdeilda UMFN og Keflavíkur, sem störfuðu saman að þessu móti og sáu til þess að framkvæmdin var íþróttafélögunum og bæjarfélaginu okkar til mikils sóma.

Alls tóku rúmlega 1200 börn ( 1205) þátt í mótinu ásamt fjölskyldum sínum víðsvegar að af landinu. Nettómótið er stærsta árlega körfuboltamótið á Íslandi.
Það er ljóst að til þess að slík framkvæmd gangi upp þarf góðvilja og samstarf margra aðila og má þar nefna Þjónustumiðstöð Reykjanesbæjar og starfsfólk grunnskólanna þar sem keppendur, þjálfarar og foreldrar gistu. Að þessu sinni var í fyrsta sinn keppt í íþróttahúsinu í Garði þar sem yfirfullt var í öllum íþróttasölum Reykjanesbæjar.
Síðast en ekki síst má ekki gleyma foreldrum barnanna sem tóku virkan þátt í  mótinu, hvort sem þeir voru í hlutverkum liðsstjóra, dómara eða áhorfenda.

Það var sérstaklega ánægjulegt að fá að taka þátt í lokaathöfn Nettómótsins og upplifa þar hvernig gleðin skein úr andlitum keppenda, sem allir fengu viðurkenningapening um hálsinn og svo páskaegg að auki fyrir þátttökuna.

Að lokum glumdi í íþróttasalnum, þegar allir krakkarnir kölluðu einum rómi:
TAKK FYRIR OKKUR !

Fyrir hönd Reykjanesbæjar tek ég hjartanlega undir þessi orð.

Stefán Bjarkason
Framkvæmdastjóri íþrótta- og tómstundasviðs
Reykjanesbæjar