Í liðinni viku var haldinn íbúafundur í Höfnum að frumkvæði nýs íbúaráðs sem þar hefur verið stofnað. Bæjarstjóri ásamt nokkrum starfsmönnum sveitarfélagsins mættu til fundar í safnaðarheimilinu í Höfnum og svöruðu spurningum sem íbúar höfðu t.a.m. um vegaframkvæmdir, grenndargáma, snjómokstur, almenningssamgöngur og fleira tengt íbúabyggðinni. Fundurinn tókst vel og fóru embættismenn heim með nokkur verkefni sem stendur til að vinna á næstu misserum.

Reykjanesbær þakkar Hafnabúum fyrir frumkvæðið og góða mætingu á fundinn sem ákveðið hefur verið að halda árlega hér eftir.