Góðar undirtektir við fyrirkomulagi skráningardaga í leikskólum

Á síðasta fundi menntaráðs Reykjanesbæjar voru kynntar niðurstöður nýrrar könnunar meðal foreldra og starfsfólks leikskóla í bænum um fyrirkomulag skráningardaga í dymbilviku og vetrarfríum. Niðurstöðurnar sýna að meirihluti þeirra sem tóku þátt í könnuninni er ánægður með fyrirkomulagið.

Heildarniðurstöður foreldra sýna að 79% telja fyrirkomulag skýrt og auðskilið, 69% upplifa skráningarferlið sem einfalt og 68% eru almennt ánægð með fyrirkomulagið. Þá telja 67% foreldra afslátt af leikskólagjöldum vera sanngjarna hvatningu til að nýta ekki þjónustu leikskóla á þessum tímabilum. Athygli vakti þó að um 10% svarenda vissu ekki af afslættinum, sem bendir til tækifæra til að efla upplýsingagjöf enn frekar.

Meðal starfsfólks leikskólanna voru viðtökur einnig mjög jákvæðar. Flest þeirra telja fyrirkomulagið árangursríkt og að það dragi úr álagi og mönnunarvanda á annasömum tímum. Meira en helmingur segir jafnframt að fyrirkomulagið hafi jákvæð áhrif á starfsanda.

Helstu ábendingar starfsfólks snúa að því að skýra reglur um skráningu og samræma stefnu um lokanir milli leikskóla. Menntasvið mun nú fara yfir ábendingarnar og þakkar bæði foreldrum og starfsfólki kærlega fyrir þátttökuna.