Grunnskólar hefjast á ný

Nú líður senn að því að grunnskólar Reykjanesbæjar hefji störf. Mánudaginn 23. ágúst og þriðjudaginn 24. ágúst eru skólasetningar en nánari upplýsingar fyrir hvern skóla verða birtar á heimasíðum þeirra. Um 290 fyrstu bekkingar eru nú að hefja grunnskólanám eftir helgina en til samanburðar voru það um 250 nemendur fyrir ári síðan sem tóku sín fyrstu skref inn í grunnskólana okkar. Alls eru nemendur í grunnskólunum okkar þegar þetta er skrifað 2542 sem er fjölgun um 80 nemendur frá skólabyrjun fyrir ári síðan þegar þeir voru 2462.

Flestum nemendum og foreldrum finnst gott að komast aftur í sínar venjur hausts og vetrar þó erfitt geti reynst að kveðja sumarið. Framundan eru arkandi börn um allan bæ með skólatöskur á bakinu og því eru ökumenn beðnir um að sýna sérstaka aðgát í nágrenni skóla.

Við munum áfram gæta vel að öllum sóttvörnum í grunnskólunum og hvetjum alla til þess að gæta að persónulegum smitvörnum, minnum á mikilvægi handþvottar og notkun spritts. Við minnum foreldra á að senda ekki börn með einkenni í skólann, betra er að gæta allrar varúðar, halda þeim heima og fara í sýnatöku. Við erum í þessu saman.

Foreldrum og aðstandendum er heimilt að koma inn í skólabyggingar en skulu gæta að sóttvörnum og bera andlitsgrímur ef ekki er hægt að viðhafa 1 metra nálægðarmörk.