Gunnar Marel og Paddý´s hljóta menningarverðlaun Reykjanesbæjar

Gunnar Marel með súluna, ásamt Björk Þorsteinsdóttur formanni menningarráðs og Árna Sigfússyni bæja…
Gunnar Marel með súluna, ásamt Björk Þorsteinsdóttur formanni menningarráðs og Árna Sigfússyni bæjarstjóra.

Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar árið 2010, var afhent í Listasal Duushúsa í gær á degi íslenskrar tungu. 
Veitt voru tvenn verðlaun; önnur til eintaklings og hin til fyrirækis. Verðlaunagripurinn er hannaður og smíðaður af keflvísku listakonunni Elísabetu Ásberg.

Gunnar Marel Eggertsson hlaut Súluna í ár fyrir smíðina á víkingaskipinu Íslendingi, siglinguna til Ameríku og þátttöku sína við uppbyggingu Víkingaheima í Reykjanesbæ.

Víkingaskipið Íslendingur var smíðað á árunum 1994 til 1996 og er eftirgerð Gaukstaðaskipsins sem fannst í Noregi árið 1882. Gunnar Marel sá alfarið um smíðina og árið 2000 stýrði hann síðan skipi sínu vestur um haf, í kjölfar Leifs Eiríkssonar. Segja má að þessi skip hafi verið þotur víkingatímans þar sem þau gátu farið mjög hratt yfir. Dæmi eru um að menn hafi aðeins notað 3-4 daga á leiðinni milli Íslands og Noregs. Þetta hefur síðan sannast í þeim leiðöngrum sem Íslendingur hefur farið. Lagt var af stað frá Reykjavík á þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga 17. júní árið 2000 og komið til New York 5. október sama ár. Komið var við í 25 höfnum en vegalengdin sem Íslendingur sigldi í þessari ferð var um 4200 mílur. Í hverri höfn sem Íslendingur kom var mikið um að vera. Fjöldi manns tók á móti skipinu þar voru líka þjóðhöfðingjar og annað fyrirfólk og talið er að um 350.000 manns hafi komið um borð í Íslending í þeim höfnum sem heimsóttar voru. Níu árum eftir að Gunnar sigldi af stað í frægðarför sína, þann 17. júní árið 2009, var opnuð sýning um skipið og sögu þess í glæsilegri nýbyggingu; Víkingaheimum. Þar geta gestir skoðaða skipið og einnig hluta af frægri víkingasýningu Smithsonian stofnunarinnar í Bandaríkjunum sem var einmitt opnuð árið 2000 til að minnast landafunda Leifs Eiríkssonar. Gunnar Marel tók virkan þátt í uppbyggingu Víkingaheima og fyrir þá vinnu, smíði skipsins og siglinguna sjálfa, vill Reykjanesbær þakka honum með Súlunni í ár.

Veitingastaðurinn Paddy''s hlaut fyrirækjasúluna í ár fyrir eflingu tónlistarlífs í Reykjanesbæ með því að skapa ungu tónlistarfólki tækifæri til flutnings tónlistar. Frá stofnun Paddy''s hafa eigendur staðarins lagt áherslu á lifandi tónlist og þeir ásamt ýmsum ráðgjöfum hafa skipulagt tónleika og aðra menningarviðburði. Þetta hefur verið unnið af hugsjón, áhuga og ástríðu til listarinnar og oftast í sjálfboðavinnu.