Sigurður Sævarsson höfundur Hallgrímspassíu
Sigurður Sævarsson höfundur Hallgrímspassíu

Næstkomandi laugardag, þann 6. mars kl.17 í Ytri-Njarðvíkurkirkju, verður flutt verkið Hallgrímspassía eftir Sigurð Sævarsson. Flytjendur eru kammerkórinn Schola cantorum, kammersveitin Caput og Jóhann Smári Sævarsson, bassi, undir stjórn Harðar Áskelssonar. Passían var frumflutt í Hallgrímskirkju, föstudaginn langa 2007. Verkið fékk einróma lof gagnrýnenda og sagði Ríkharður Örn, gagnrýnandi Morgunblaðsins meðal annars:

Fleira er matur en feitt kjöt, og heillandi ófeimni Sigurðar við látlausan ferskleika leiddi fram fjölda bráðfallegra augnablika, ekki sízt hljómrænna, sem eftir 50 ára skraufþurran akademisma verkuðu furðu nýstárleg. Meðal frumlegra uppátækja mætti nefna "Pílatus herrann hæsta" og næstu 2 vers með grafískri lýsingu á píslum Krists, þar sem ofurveikt messandi atkvæðaeintón kvenradda bak við afgangskórinn myndaði áhrifamikinn kontrapunkt; frumlegt "understatement" þar sem flestir hefðu velt sér upp úr krassandi tónlýsingum í dreyra drifnum anda Mels Gibson.

Það var auðheyrt að mergjaður andi Passíusálmanna hafði gefið jafnt höfundi sem flytjendum og stjórnanda byr undir báða vængi, að ógleymdri safaríkri meðferð Jóhanns Smára á burðarhlutverki guðspjallaskáldsins. Eftir slíka úrvalstúlkun er varla að efa að þetta gullfallega verk eigi eftir að lifa með þjóðinni.
Dagana eftir tónleikana mun hópurinn hljóðrita passíuna í Hallgrímskirkju, til útgáfu. Hallgrímspassían verður á dagskrá Kirkjulistarhátíðar í Hallgrímskirkju um páskana 2010.

Hægt er að hlusta á sýnishorn úr passíunni á sigurdursaevarsson.com