Hefja byggingu kísilvers í sumar

 

Samningar hafa náðst um byggingu kísilvers í Helguvík á Suðurnesjum og mun bygging þess hefjast strax í sumar. Gert er ráð fyrir að 300 störf skapist á byggingartímanum og 90 störf í verinu sjálfu þegar starfsemin hefst. Samningarnir voru undirritaðir í Reykjanesbæ í dag.

Skrifað var undir samninga í dag milli stjórnvalda annars vegar og Reykjanesbæjar og Íslenska kísilfélagsins hins vegar. Þá var og gengið frá samningi við Landsnet um orkuflutning og frá orkusamningi við HS Orku og Landsvirkjun en verið þarf 65 MW af rafmagni til starfseminnar.
„Þessir samningar eru fyrsta mikilvæga vísbendingin um að þau stóru atvinnuskapandi verkefni sem við höfum ótrauð þurft að kosta og berjast fyrir eru raunhæf og skammt undan", sagði Árni Sigfússon bæjarstjóri við undirskriftina. 
Að baki Íslenska kísilfélaginu er bandaríska fyrirtækið Globe Speciality Metals sem er einn stærsti framleiðandi í heimi af kísilmálmi og sérhæfðu kísilblendi.
Framkvæmdir munu hefjast í byrjun sumars en verksmiðjuhús skal rísa á 20 mánuðum og starfsemin hefjast mitt ár 2013. Verkefnið er fullfjármagnað án ríkisaðstoðar að þeim ívilnunum frátöldum sem veittar eru með fjárfestingarsamningum við íslenska ríkið og Reykjanesbæ.

„Þegar álversverkefnið gengur síðan eftir þýðir þetta algjör umskipti fyrir íbúa á Suðurnesjum og fyrir bæjarfélagið. Við munum stíga út úr því ömurlega ástandi að hafa mesta atvinnuleysið og búa á láglaunasvæði yfir í að hafa vel launuð og örugg störf fyrir flesta". ..„Mér sýnist hér vera fyrsta erlenda nýfjárfestingin eftir efnahagshrunið - Eitt af 5 stórverkefnum sem hér hafa verið undirbúin er að fá farsælan farveg" sagði Árni.