Heilsu- og forvarnarvika

Fólk að gera æfingar
Fólk að gera æfingar

Heilsu- og forvarnarvika í Reykjanesbæ verður haldin 5. – 11. október.  

Markmiðið með heilsu- og forvarnarviku er að draga úr þeim áhættuþáttum sem einstaklingar geta staðið frammi fyrir á lífsleiðinni og hlúa að verndandi þáttum með þátttöku allra bæjarbúa. Fyrirtæki og stofnanir í bæjarfélaginu bjóða upp á fjölbreytta dagskrá sem almenningur er hvattur til að kynna sér. 

Skoða dagskrá 

Heilsulæsi er þema vikunnar 

Heilsulæsi er áherslan í ár. Heilsulæsi er hæfnin til að sækja sér og vinna úr upplýsingum og aðstæðum sem snúa að jákvæðum og uppbyggjandi ákvörðunum varðandi eigin heilsu. Þetta á einnig við um vinnustaði og heilbrigðiskerfi og samfélagið í heild. Takmarkað heilsulæsi hefur neikvæð áhrif á heilsuhegðun og eykur ójöfnuð til heilsu en má efla með því að auka aðgengi einstaklinga að fræðsluefni um þætti sem nýtast til upplýsinga á uppbyggilegan hátt.  

Þegar við fræðum börnin okkar um ávinning þess að hlúa vel að svefninum aukum við líkurnar á því að þau tileinki sér góðar svefnvenjur ef þau eru meðvitað um þau jákvæðu áhrif sem góðar svefnvenjur hafa á heilsuna. Sama má segja um færni einstaklinga til að afla sér upplýsinga um innihald matvæla og hvernig megi nálgast næringarríkan mat sem hefur jákvæð áhrif á líðan þeirra.  

Forvarnarverkefni á borð við fræðslu um neikvæð áhrif reykinga, mikilvægi þess að nota bílbelti og aka á löglegum hraða og hvaða afleiðingar neysla vímuefna getur haft eru allt dæmi um verkefni sem auka heilsulæsi og ýta undir jákvæðar ákvarðanatökur einstaklinga til heilbrigðis.  

Ábyrgðin er okkar allra að standa saman og styðja hvert annað í auknu heilsulæsi. 
Fræðum, hvetjum og kennum hvert öðru. Sýnum þolinmæði þegar erfiðlega gengur að upplýsa einstaklinga og tryggjum að innihaldinu sé náð þegar kemur að því að efla heilsulæsi hvert hjá öðru. Með því eflum við jákvæða hegðun og líðan innan samfélagsins.