Hljómsveitin Valdimar hlaut Súluna

Meðlimir Valdimars með verðlaunin.
Meðlimir Valdimars með verðlaunin.

Hljómsveitin Valdimar hlaut menningarverðlaun Reykjanesbæjar

Afhending Súlunnar, menningarverðlauna Reykjanesbæjar fyrir árið 2013, fór fram við hátíðlega athöfn í Listasal Duushúsa þriðjudaginn 12. nóv. kl. 18.30.  Verðlaunin eru veitt þeim sem hafa unnið vel að menningu og listum og var þetta í sautjánda sinn sem Súlan var afhent.  Að þessu sinni fékk Hljómsveitin Valdimar Súluna fyrir framlag sitt til  eflingar tónlistar. Verðlaunagripurinn er  hannaður og smíðaður af keflvísku listakonunni Elísabetu Ásberg.  Handhafa fyrri ára má sjá á vef Reykjanesbæjar. Formaður menningarráðs Björk Þorsteinsdóttir afhenti verðlaunin fyrir hönd bæjarstjórnar.

Upplýsingar um fyrri handhafa Súlunnar má finna hér

Styrktar- og stuðningsaðilum Ljósanætur færðar þakkir

Við sama tækifæri var styrktar- og stuðningsaðilum Ljósanætur, menningar og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar, þakkaður stuðningurinn og greint frá þeirri ánægjulegu staðreynd að fjöldi þessara aðila eykst með hverju árinu, nú voru þeir 85 en 66 í fyrra og má sjá listann á vef Reykjanesbæjar.

Skjótur frami Valdimars

Hljómsveitin Valdimar úr Reykjanesbæ var stofnuð árið 2009 og er skipuð 4 Keflvíkingum, Garðbúa og einum höfuðborgarbúa. Strákarnir eiga það flestir sameiginlegt að hafa hlotið tónlistaruppeldi í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, mismikið þó, og þar hófust kynni sumra þeirra. Sumir létu staðar numið í formlegu tónlistarnámi á unglingsárum en aðrir héldu áfram og hafa lokið framhaldsnámi í tónlist. Til að mynda krækti Valdimar í höfuðborgarbúann í Listaháskólanum þar sem Kristinn lagði stund á tónsmíðar. Valdimar og Þorvaldur trommuleikari ólust saman upp í tónlistarskólanum. Sveitin tók strax við að semja sína eigin tónlist og fyrstu tónleikar þeirra fóru fram á skemmtistaðnum Paddy‘s í Keflavík. Þar var staddur Björgvin Ívar Baldursson, barnabarn Rúnars Júlíussonar heitins, sem heyrði í strákunum og bauð þeim að kíkja í Geimstein. Í framhaldinu bauð Geimsteinn þeim plötusamning og boltinn fór að rúlla. Segja má að hljómsveitin hafi nánast slegið í gegn á einni nóttu. Sjálfir reiknuðu strákarnir ekki með þessum ótrúlegu móttökum. Þeir voru ofsa kátir þegar lag frá þeim fór að hljóma á öldum ljósvakans og sáu fyrir sér að í framhaldinu fengju þeir kannski að spila svolítið í Keflavík.

Það má með sanni segja að þeir hafi hitt naglann á höfuðið þegar þeir gáfu fyrstu plötu sinni nafnið Undraland en það má auðveldlega færa fyrir því rök en þangað hafi þeir rambað þegar platan þeirra kom út árið 2010. Platan fékk afar góðar viðtökur og nutu lögin Yfirgefinn, Brotlentur og Undraland mikilla vinsælda í útvarpi og var Yfirgefinn eitt mest spilaða lag ársins 2011.  Fyrir plötuna hlaut sveitin tilnefningu sem Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum það ár auk þess sem hún var valin á úrvalslista Kraums. Næsta plata hljómsveitarinnar, Um stund kom út árið 2012 og naut líka mikillar hylli og má þar sértaklega nefna lögin Sýn, Beðið eftir skömminni og Yfir borgina. Platan var valin önnur besta plata ársins af hlustendum og starfsfólki Rásar 2 og á íslensku tónlistarverðlaununum var platan tilnefnd sem besta platan, fyrir lagahöfund ársins og Valdimar Guðmundsson hlaut verðlaun sem besti söngvari ársins.

Meðlimir hljómsveitarinnar eru:
Ásgeir Aðalsteinsson, gítarleikari og lagahöfundur
Guðlaugur Már Guðmundsson, bassaleikari
Högni Þorsteinsson, gítarleikari
Kristinn Evertsson, hljómborðsleikari
Valdimar Guðmundsson, söngvari, básúnuleikari og lagahöfundur
Þorvaldur Halldórsson, trommuleikari