Eins og ég hef áður komið inn á í fyrri pistlum má skipta heimsfaraldri á borð við  Covid19 í þrjár bylgjur. Fyrsta bylgjan, sjúkdómurinn sjálfur, hefur nú herjað á okkur síðan í lok febrúar en er sem betur fer í rénun. Önnur bylgjan, atvinnuleysi og efnahagslegir erfiðleikar, eru því megin viðfangsefnið okkar þessa dagana. Ef okkur tekst vel í þeirri baráttu hjálpar það okkur að draga verulega úr þriðju bylgjunni, félagslegum erfiðleikum og áskorunum, sem annars er hætt við að fylgi í kjölfarið.

Starfsfólk Reykjanesbæjar hefur undanfarna daga og vikur verið að kortleggja og greina möguleika á fjölgun atvinnutækifæra á svæðinu, meðal annars í gegnum þau úrræði sem ríkisstjórnin hefur kynnt. Til að kynna þau verkefni sem þegar eru á  teikniborðinu munum við halda íbúafund í beinu streymi á Facebook síðu Reykjanesbæjar n.k. fimmtudag, 14. maí, kl. 17.30. Á fundinum verður staðan kynnt auk þess sem fólki býðst að senda inn spurningar á reykjanesbaer@reykjanesbaer.is sem reynt verður eftir fremsta megni að svara. Upptaka af fundinum verður síðan aðgengileg á sömu síðu fyrir þá sem ekki geta fylgst með streyminu beint.  

Það er von okkar að með þessu takist að koma upplýsingum á framfæri og svara helstu spurningum sem brenna á fólki. Fleiri slíkir fundir eru fyrirhugaðir eftir því sem málunum vindur fram og línur skýrast.

Kær kveðja
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri.