Íbúum og ferðaþjónustuaðilum boðin þátttaka í mótun ferðamálastefnu

Ferðamenn í Sandvík á góðum sumardegi.
Ferðamenn í Sandvík á góðum sumardegi.

Íbúar og ferðaþjónustuaðilar eru hvattir til að taka þátt í mótun ferðamálastefnu fyrir Reykjanesbæ. Íbúafundur verður haldinn í Stofunni, Duus Safnahúsum miðvikudaginn 16. nóvember kl. 17:00. Mikilvægt að sem víðtækasta þátttaka náist því það er stefna Reykjanesbæjar að framtíð bæjarins sé mótuð í samvinnu.

Ferðaþjónusta skipar æ stærri sess í Reykjanesbæ enda hefur ein mesta fjölgun ferðamanna verið á Suðurnesjum. Þetta hafa tölur um fjölgun gistinátta sýnt sem og skýrsla Nordregio, norrænu rannsóknarstofnunar um stöðu norrænna svæða. Þar hafa Suðurnesin jafnframt verið nefnd sem svæði tækifæra.

Í Reykjanesbæ er starfandi ferðamálateymi sem hefur m.a. haft á verkefnaskrá sinni að undirbúa ferðamálastefnu fyrir bæinn. Mikilvægt er í þeirri hröðu uppbyggingu sem hefur átt sér stað að undanförnu og áætlanir eru um á næstu árum, m.a. hjá Isavia ohf. á Keflavíkurflugvelli, að hægt verði að byggja á skýrri stefnu í ferðamálum. Öll uppbygging hefur áhrif á vöxt svæðisins og tækifæri.

Meðlimir ferðamálateymis munu skipta sér niður á borð eftir umræðuefnum og gefst þátttakendum kostur á að færa sig á milli borða og taka þátt í öllum umræðuþráðum. Undir hverjum þætti verða nokkrar spurningar sem munu leiða þátttakendur áfram undir stjórn hópstjóra. Umræðuþræðirnir eru:

  • Framtíðarsýn ferðaþjónustu í Reykjanesbæ
  • Verkefni 
  • Einkenni Reykjanesbæjar sem ferðamannastaðar
  • Markaðssetning
  • Umhverfi og samgöngur