Innleiðing á stöðumati fyrir nýja nemendur af erlendum uppruna

Frá fundi stýrihópsins í Reykjanesbæ á síðsta ári. Frá vinstri Þorsteinn Hjartarson Árborg, Kolfinn…
Frá fundi stýrihópsins í Reykjanesbæ á síðsta ári. Frá vinstri Þorsteinn Hjartarson Árborg, Kolfinna Njálsdóttir Reykjanesbæ, Helgi Arnarson Reykjanesbæ, Þórdís H. Ólafsdóttir Hafnarfirði, Kristrún Sigurjónsdóttir Hafnarfirði og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir Reykjanesbæ

Sveitarfélögin Árborg, Hafnarfjörður og Reykjanesbær í samstarfi við Menntamálastofnun hafa unnið að þýðingu og staðfæringu á sænsku stöðumatstæki sem hefur verið notað með góðum árangri í Svíþjóð fyrir nýja nemendur af erlendum uppruna sem eru tiltölulega nýkomnir til landsins. Lagt er m.a. mat á fyrri þekkingu og reynslu sem og læsi og talnaskilning. Meginmarkmið þessa stöðumats er að styðja skólana í að staðsetja nemendur hvað varðar fyrri þekkingu og reynslu og auðvelda þar með kennurum og skólastjórnendum að skipuleggja nám hvers nemanda út frá styrkleikum hans og þörfum.

Stýrihópur hefur verið starfandi í tvö ár en hann skipa Aneta Figlarska, kennsluráðgjafi í Árborg, Fanney Dóróthe Halldórsdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, kennsluráðgjafi hjá fræðslusviði Reykjanesbæjar, Helgi Arnarson, sviðsstjóri fræðslusviðs Reykjanesbæjar, Hrund Harðardóttir, kennsluráðgjafi í Árborg, Kolfinna Njálsdóttir, deildarstjóri skólaþjónustu Reykjanesbæjar, Kristrún Sigurjónsdóttir, kennsluráðgjafi í Hafnarfirði, Þórdís Helga Ólafsdóttir, sérkennslufulltrúi grunnskóla í Hafnarfirði og Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri hjá Sveitarfélaginu Árborg.

Fimmtudaginn 21. febrúar sl. var haldið námskeið í Garðabæ fyrir fjóra grunnskóla sem hafa tekið að sér að hefja innleiðingu á stöðumatinu. Þetta matstæki var hannað af þremur háskólum í Svíþjóð og Skolverket í kjölfar viðamikillar rannsóknar. Þeir skólar sem ríða á vaðið eru Háaleitisskóli í Reykjanesbæ, Lækjarskóli í Hafnarfirði, Vallaskóli á Selfossi og Fellaskóli í Breiðholti. Fleiri tóku þátt í námskeiðinu, m.a. ráðgjafar frá Miðju máls og læsis í Reykjavík og fulltrúar frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þær Þórdís H. Ólafsdóttir og Annelie Hultgren, sem hefur mikla reynslu af kennslu fjöltyngdra barna í Rosengårdskolan í Malmö, kynntu og kenndu á stöðumatstækið og fjölluðu um kennslu í fjöltyngdum bekk. Þátttakendur létu vel af námskeiðinu og munu í kjölfarið leggja stöðumatið fyrir í sínum skólum. Þegar reynsla er komin á notkun þess og prófarkalestri lokið verða haldin fleiri námskeið og öllum skólum á landinu gefið tækifæri til að nýta hið nýja matstæki sem hefur tilfinnanlega vantað hér á landi.

Hér má sjá leiðbeinendur á námskeiðinu sem haldið var í Garðabæ 21. febrúar sl.

Hér má sjá fulltrúa frá skólunum fjórum sem sátu námskeiðið í Garðabæ