Innleiðing Barnasáttmálans

Aðgerðaáætlun Reykjanesbæjar um innleiðingu Barnasáttmálans er tilbúin.

Vorið 2020 undirrituðu Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Birna Þórarinsdóttir framkvæmdastýra UNICEF og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri samstarfssamning um verkefnið Barnvæn sveitarfélög. Verkefnið styður sveitarfélög við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína stjórnsýslu og starfsemi.

Á fundi bæjarstjórnar þann 5. nóvember 2022 sl. var aðgerðaáætlun Reykjanesbæjar vegna innleiðingar Barnasáttmálans samþykkt. Áætlunin byggir á fjölbreyttri greiningarvinnu á fyrirliggjandi opinberum gögnum um stöðu, heilsu og líðan barna í Reykjanesbæ. Auk þess er tekið mið af skoðunum barna og ungmenna sem leitað var eftir í sérstakri könnun sveitarfélagsins ásamt samtölum við sérfræðihópa barna og á ungmennaþingi. Í áætluninni eru 16 aðgerðir sem eru misflóknar og taka mislangan tíma að vinna. Myndaður hefur verið stýrihópur með fulltrúum frá öllum sviðum sveitarfélagsins ásamt fulltrúum úr meiri og minni hluta bæjarstjórnar. Stýrihópurinn leiðir verkefnið áfram og kemur aðgerðunum í framkvæmd.

Mikilvægt er að taka það fram að aðgerðaáætluninni er ekki ætlað að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eins og hann leggur sig enda er það verkefni sem lýkur aldrei.

Hér má nálgast aðgerðaáætlun Reykjanesbæjar vegna innleiðingar Barnasáttmálans.