Íslensk náttúra á Reykjanesi

Dagur íslenskrar náttúru er miðvikudaginn 16. september og er það í fimmta sinn sem dagurinn er haldinn hátíðlegur. Í ár beinir Umhverfis- og auðlindaráðuneytið athygli sérstaklega að þeim stöðum og fyrirbærum í íslenskri náttúru sem hver og einn hefur hvað mesta dálæti á.  

Öll eigum við okkar óskastaði, hvort sem það er tjörn í túnfætinum heima, lundur í íslenskum skógi, fjall sem býður einstakt útsýni, friðlýst svæði, þjóðgarður eða leynistaður sem geymir ljúfar minningar og leyndarmál. Hver sem staðurinn er þá endurspeglar hann þá staðreynd að íslensk náttúra er órjúfanlegur hluti sjálfsmyndar okkar Íslendinga. 

Í tengslum við Dag íslenskrar náttúru er hvatt til þess að fólk deili sögum og jafnvel myndum sem tengjast óskastöðum og eftirlætisfyrirbærum þeirra í íslenskri náttúru. Notast verður við myllumerkin #stadurinnminn og #DÍN á samfélagsmiðlum í því sambandi. Þar skipta staðsetningar staða eða náttúrufyrirbæra ekki höfuðmáli heldur getur frásögn eða mynd af ónefndum stað þjónað sama tilgangi, sem er að beina sjónum að því hversu margbreytileg íslensk náttúra er og hversu fjölbreytt upplifun okkar er á því sem hún hefur fram að bjóða.

„Hér á Reykjanesi er margt að finna og skoða, en til undirbúnings er tilvalið að kíkja á internetið og slá inn www.visitreykjanes.is en þar er að finna veglegan lista af áhugaverðum stöðum sem hægt er að skoða.  Við erum svo heppin að vera umkringd stórbrotinni náttúru með miklu háhitasvæði, hverum, gufustrókum og hraunbreiðum. Svæðið er mikill ævintýraheimur fyrir unga landkönnuði og kjörið fyrir alla fjölskylduna til að upplifa í sameiningu,“ segir Berglind Ásgeirsdóttir garðyrkjufræðingur.

Berglind nefndi einnig jarðvanginn á Reykjanesi en jarðvangur er gæðastimpill á svæði sem er einstakt á heimsvísu og inniheldur merkilegar og einstakar jarðminjar. Garðurinn fékk á dögunum alþjóðlega vottun og er því einn af 66 alþjóðlega vottuðum jarðvöngum í Evrópu.  Frekari upplýsingar um verkefnið má finna á heklan.is/reykjanes-geopark-project.

„Á degi íslenskrar náttúru 16. september hvet ég alla til að klæða sig eftir veðri og kíkja út og sjá hversu undursamleg og skemmtileg náttúran okkar er og munum að það er hægt að njóta hennar allt árið um kring,“ segir Berglind að lokum.