Jólahús Reykjanesbæjar 2023

Borgarvegur 20 er Jólahús Reykjanesbæjar
Borgarvegur 20 er Jólahús Reykjanesbæjar

Íbúar í Reykjanesbæ eru margir hverjir sannkölluð jólabörn og leggja mikinn metnað í jólaskreytingar. Það er einstaklega gaman að taka rúnt um bæinn og skoða þessar fallegu skreytingar. Þar sem bærinn okkar stækkar stöðugt geta glæsilegar jólaskreytingar leynst víða og því þótti tilvalið að smella í laufléttan jólaleik þar sem íbúar gátu komið með tillögur að jólahúsi Reykjanesbæjar. Allt var þetta fyrst og fremst hugsað til skemmtunar og til að vekja athygli á því sem vel er gert hjá íbúum Reykjanesbæjar en Húsasmiðjan styður við bakið á uppátækinu með gjafabréfi til eigenda jólahússins.

Það var menningar- og þjónusturáð Reykjanesbæjar sem fékk það skemmtilega verkefni að útnefna jólahús Reykjanesbæjar árið 2023 úr tilnefningum sem bárust frá íbúum. Ráðið vill hrósa íbúum fyrir augljósan metnað þegar kemur að jólaskreytingum og þakkar þeim sem sendu inn tilnefningar en þær voru fjölmargar og átti ráðið fullt í fangi með að keyra um bæinn og taka út stórglæsileg jólahús.

Keppnin var ansi hörð og mörg hús sem komu til greina en að þessu sinni er það Borgarvegur 20 sem hlýtur nafnbótina jólahús Reykjanesbæjar 2023. Eigendur hússins eru þau Harpa Guðmundsdóttir og Einar Guðmundsson. Jólahúsið að Borgarvegi hefur verið einstaklega fallega skreytt til margra ára og var ráðið sammála um að húsið kallaði svo sannarlega fram „VÁ faktorinn“ hjá þeim sem það sæju. Það var Þórdís Ósk Helgadóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs sem færði eigendum jólahússins viðurkenningu frá Húsasmiðjunni og Reykjanesbæ í Aðventugarðinum á Þorláksmessukvöld.