Konur í aðalhlutverki í 17. júní dagskrá bæjarins

Konur voru í aðalhlutverki í 17. júní dagskrá Reykjanesbæjar sem fór mjög vel fram. Brynja Árnadóttir fyrrverandi skólastjóri var fánahyllir í ár, ræður komu úr röðum kvenna og að vanda var fjallkonan verðugur fulltrúi ungra kvenna.

Dagskráin í Reykjanesbæ hófst af krafti þegar tugir manna tóku þátt í 17. júní hlaupi Ungmennafélags Njarðvíkur. Hátíðarmessan var í Ytri-Njarðvíkurkirkju og að venju leiddu skátar skrúðgöngu frá skátaheimilinu að skrúðgarðinum. Eftir að Brynja Árnadóttir hafði dregið þjóðfánann að húni söng Karlakór Keflavíkur þjóðsönginn. Anna Lóa Ólafsdóttir forseti bæjarstjórnar setti hátíðardagskrána og fjallkonan var Guðlaug Björt Júlíusdóttir dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sem las ljóð eftir konu í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Fyrir valinu varð „Hver á sér fegra föðurland“eftir Huldu, Unni Benekitsdóttur Bjarklind, sem er hluti af söngvum sem helgaðir voru þjóðhátíðar degi Íslands 17. júní 1944. Ræðu dagsins flutti Sr. Erla Guðmundsdóttir sóknarprestur í Keflavíkurkirkju. 

Að ræðum og upplestri loknum tóku við ýmis skemmtiatriði helguð yngri kynslóðum og sprell var um allan skrúðgarð. Unga fólkið skemmti sér svo í Ungmennagarðinum um kvöldið.

Um hyllingu Brynju Árnadóttur:

Brynja Árnadóttir er fædd og uppalin í Keflavík og er einn af máttarstólpum bæjarins. Hún átti afar farsælan feril í starfi sínu frá haustinu 1963 til vorsins 2010 við Myllubakkaskóla sem  áður hét Barnaskólinn í Keflavík.  Brynja hóf starf sitt sem íþróttakennari, fór síðan í almenna kennslu, gerðist deildarstjóri og varð skólastjóri í september 2003. Það má því segja að Brynja hafi bæði reynt að koma nemendum til andlegs og líkamlegs þroska.

Þó að hún hætti sem skólastjóri vorið 2010 lagði hún ekki árar í bát því að hún starfaði á Skólaskrifstofu Reykjanesbæjar til loka ársins 2014.

Brynja hefur alla tíð borið virðingu fyrir því fólki sem hún hefur átt samleið með og bæði ungir og gamlir eiga góðar minningar af gagnlegum skoðanaskiptum og hlýrri nærveru. Öll þau fjölmörgu mál sem hún tók að sér vann hún af trúmennsku, alúð og víðsýni. Bæjarfélagið þakkar henni fyrir framlag hennar við að gera bæinn okkar, Reykjanesbæ, að betra samfélagi. 

Megir þú hafa þökk fyrir,

Kjartan Már Kjartansson,
bæjarstjóri Reykjanesbæjar