Kveikjum ljós á Ljósanótt

Lampi í glugga
Lampi í glugga

Ljósanótt áfram tákn bjartsýni, ljóss og birtu

Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð, hefur ávallt skipað mikilvægan sess í menningar- og mannlífi Reykjanesbæjar. Á Ljósanótt sameinast íbúar í miðbænum þar sem menningin er tekin inn, búðirnar þræddar og börnin fá að leika sér. Framlag bæjarbúa, félagasamtaka og fyrirtækja hefur verið ómetanlegt í gegnum tíðina og gert Ljósanótt að einni glæsilegustu bæjarhátíð landsins. Í krafti samtakamáttar bæjarbúa hefur tekist að lýsa upp skammdegið í 20 ár enda er Ljósanótt orðin að tákni bjartsýni, ljóss og birtu. 

Kveikjum ljós

Þótt Ljósanótt hafi verið aflýst í ár vill Reykjanesbær hvetja bæjarbúa til að taka höndum saman og skapa táknræna Ljósanótt og lýsa upp skammdegið með því að lýsa upp nærumhverfi sitt. Það má gera með því að kveikja á lampa í glugga, setja upp seríu eða kveikja kertaljós, lýsa upp hús eða tré í garðinum sínum.

Reykjanesbær ætlar einnig að minnast Ljósanætur með því að lýsa upp fimm byggingar í bænum, eina í hverju hverfi bæjarins, á laugardagskvöldið næstkomandi. Ljósin verða kveikt um kl. 20:00 og loga til miðnættis. Íbúar geta þannig tekið rúnt um bæinn og skoðað ljósadýrðina. Þá verða ljósin á Berginu kveikt að vanda þegar rökkva tekur.

Nýjar sýningar og sýningarstjóraspjall

Þótt engin sé Ljósanótt geta íbúar lagt leið sína í Duus Safnahús um helgina og áfram inn í haustið og skoðað nýjar sýningar sem Byggðasafn og Listasafn Reykjanesbæjar eru að opna.

Byggðasafnið opnar sýningu á merku leikfangasafni Helgu Ingólfsdóttur. Helga hóf söfnun á brúðum fyrir margt löngu og í framhaldinu margskonar leikföngum öðrum sem flestir þekkja úr æsku. Hún færði Byggðasafninu allar brúður sínar að gjöf árið 2007 og heildarsafnið nokkrum árum síðar. Leikfangasafn hennar hefur aldrei áður verið sýnt í heild sinni, en það er líklega það stærsta sinnar tegundar hér á landi. Helga taldi leikföng mikilvæg í þroska og leikjum barna og mega engar fjölskyldur láta þessa skemmtilegu sýningu framhjá sér fara.

Listasafn Reykjanesbæjar opnar sýninguna Áfallalandslag en henni er ætlað að tengja áhorfandann við atburðarás áfalla sem tengjast náttúruhamförum. Sýningin er innblásin af grein sem skrifuð er af Sigurjóni Baldri Hafsteinssyni og Arnari Árnasyni, Landscapes of Trauma: a Reflection on Wonder. Sýningin er áhrifamikil og stór samsýning listamannanna Óskar Vilhjálmsdóttur, Rannveigar Jónsdóttur, Halldórs Ásgeirssonar og Gjörningaklúbbsins sem skipa Eirún Sigurðardóttir og Jóní Jónsdóttir.

Á sunnudag kl. 15 verður sýningarstjóraspjall Helgu Þórsdóttur um sýninguna. Þess má geta að ókeypis aðgangur er í Duus Safnahús eins og stendur.