Kvennaveldið og Menningarverðlaunin

Eitt af verkunum á sýningunni.
Eitt af verkunum á sýningunni.

Ný sýning í Listasafni Reykjanesbæjar

„Kvennaveldið: Konur og kynvitund“ heitir sýning sem opnuð verður á vegum Listasafns Reykjanesbæjar í Duus Safnahúsum í Reykjanesbæ föstudaginn 13. nóvember kl. 18. Á sýningunni er að finna verk eftir tólf listakonur, Doddu Maggý, Guðnýju Kristmanns, Guðrúnu Tryggvadóttur, Hlaðgerði Íris, Huldu Vilhjálmsdóttur, Jóhönnu Kristínu Yngvadóttur, Kristínu Gunnlaugsdóttur, Louise Harris, Magdalenu Margréti Kjartansdóttur, Rósku, Valgerði Guðlaugsdóttur og Þórdísi Aðalsteinsdóttur. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur.

Leiðarstef sýningarinnar er að finna í texta sem bandaríska skáldkonan Joan Didion skrifaði um konur og femínisma, nefnilega: „Hvað það er að vera kona, ósættanlegar andstæðurnar sem í því felast – hvernig það er að lifa dýpsta vitundarlífi sínu líkt og neðansjávar, við dimman nið blóðs, barnsburða og dauða“. Í þessum texta deilir rithöfundurinn einnig á bandarískan femínisma, sem hún taldi gera lítið úr girnd, myrku ímyndunarafli og líkamlega tengdum áhyggjum þroskaðra nútímakvenna.

Um listakonurnar á sýningunni segir í sýningarskrá: „(Þær) fara ekki í felur með langanir sínar og ímyndanir. Þær segja frá tilurð kynhvatar og kynþroska, opna meira að segja fyrir eldfima umræðuna um kynþokka barna, upphefja áður „óumræðanleg“ fyrirbæri á borð við sköp og fýsn kvenna, flétta saman eigin líffræði, táknfræði og sagnfræði...Áhorfandinn fær á tilfinninguna að í hispursleysi sínu séu myndlistarkonur komnar lengra í tilfinningaþroska en karlkyns starfsbræður þeirra, sjálfskipaðir umsjónarmenn stórra sanninda.“

Í sýningarskrá er einnig að finna ritgerð eftir Sigríði Þorgeirsdóttur, prófessor í heimspeki, sem ber heitið „Meiri spennu og minna stríð milli kynjanna“. Þar deilir hún m.a. á peningahagkerfi nútímans, sem „á upptök sín í hlutgervingu kvenna og meinar þeim á margan hátt að vera þær sjálfar.“

Sýningin í Listasafni Reykjanesbæjar í Duus Safnahúsum stendur til 24. janúar 2016 og er opin frá 12.00-17.00 alla daga.

Menningarverðlaunin afhent

Við sama tækifæri verða menningarverðlaun Reykjanesbæjar, Súlan, afhent og sýning frá Handverki og Hönnun opnuð.