Horft yfir Helguvíkursvæðið.
Horft yfir Helguvíkursvæðið.

Landsvirkjun tilkynnti í dag að fyrirtækið hefur undirritað raforkusölusamning við United Silicon hf. Sem hyggst reisa kísilverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ .
Þetta er annað kísilverkefni en það sem fyrirtækið Thorsil hyggst reisa í Helguvík, en nýlega var kynntur samningur þess fyrirtækis og verkfræðistofunnar Mannvits um hönnun verksmiðjunnar.

Samkvæmt samningi Landsvirkjunar við United Silicon  mun Landsvirkjun útvega rafmagn fyrir kísilmálmverksmiðju sem United Silicon áformar að reisa í Helguvík í Reykjanesbæ. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan hefji starfsemi á fyrri helmingi ársins 2016 og noti 35 MW af afli.
„Það er mjög ánægjulegt að þetta verkefni sé komið á svo gott stig en ég minni á að enn þarf að uppfylla fyrirvara sem aflétt verður í maímánuði. Við fögnum ekki fyrr en þeim fyrirvörum hefur verið aflétt“, segir Árni Sigfússon bæjarstjóri.

United Silicon keypti allt hlutafé í Stakksbraut 9 ehf. sem á lóð í Helguvík og var umhverfismat fyrir reksturinn samþykkt af Skipulagsstofnun í maí 2013. United Silicon hf. stígur með þessu móti inn í fullþróað verkefni og gerir raforkusamningur við Landsvirkjun félaginu kleift að hefja byggingu verksmiðjunnar í sumar. Ráðgjafi United Silicon hf. vegna fjármögnunar verkefnisins er fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hf. en fyrirhugað er að fjármögnun verði bæði í formi lánveitinga og skuldabréfaútgáfu.
Í frétt frá Landsvirkjun segist Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar horfa björtum augum til langtíma samstarfs með United Silicon, sem hafi unnið faglega og ötullega að þessum áfanga.

Jose Dignam, stjórnarmaður í United Silicon segir fyrirtækið hafa notið góðs stuðnings frá íslenskum samstarfsaðilum, samfélaginu á Suðurnesjum og annars staðar. „Við höfum notið þess að vinna með Landsvirkjum að þessum mikilvæga áfanga að undirrita raforkusamning í dag sem gerði okkur kleift að ákveða endanlega um staðsetningu verkefnisins,“ segir Joseph Dignam, í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Samningurinn er gerður með fyrirvörum sem þurfa að vera uppfylltir fyrir maí mánuð.