Leiksvæðið við Drekadal formlega tekið í notkun

Það var líf og fjör á vígslu nýs leiksvæðis við leikskólann Drekadal þriðjudaginn 6. maí á BAUN, þegar leikskólabörnin sem nú dvelja í tímabundinni aðstöðu í Keili komu saman og klipptu borða sem þau höfðu sjálf föndrað. Leiksvæðið er liður í uppbyggingu á leikskólanum Drekadal, nýjum sex deilda leikskóla í Dalshverfi í Innri Njarðvík, sem stefnt er að opni í ágúst 2025. Við erum viss um að á leiksvæðinu eigi börn eftir að una sér vel og njóta útiveru til fulls.

Nafn leikskólans, Drekadalur, vísar í ævintýraheim sem ýtir undir sköpunargleði og ímyndunarafl barnanna, og markmið verkefnisins er að skapa öruggt og hvetjandi umhverfi fyrir börn og starfsfólk til framtíðar. Leiksvæðið sjálft er fjölbreytt og skemmtilegt, hannað með ímyndunarafl barnanna í huga og þar er stór og litríkur dreki sem vísar í nafnið Drekadalur. 

Framkvæmdir við leikskólann hafa tekið breytingum frá upphaflegum teikningum, en samkvæmt Hreini Ágústi Kristinssyni, deildarstjóra eignaumsýslu Reykjanesbæjar, gengur verkið vel þrátt fyrir að ýmsar áskoranir hafi komið upp á leiðinni.

„Hönnun á innra skipulagi hefur breyst töluvert til að aðlaga rýmin betur að starfseminni. Við tókum meðal annars ákvörðun um að fjarlægja alla innri klæðningu hússins til að endurnýja rakavörn í útveggjum og þaki, þar sem fyrri frágangur stóðst ekki kröfur. Þá hefur verið unnið að bættri hljóðvist, brunavörnum og breytingum á salernis- og fatahólfaaðstöðu fyrir börnin,“ segir Hreinn. Einnig hefur þurft að stækka eldhús, bæta við salerni með aðstöðu fyrir starfsfólk og innleiða nýtt loftræstikerfi.

Unnið er markvisst að því að ljúka við fjórar af sex deildum leikskólans fyrir lok ágúst, og vinna verktakar hörðum höndum að því markmiði. Uppfærð verkáætlun verður gerð um leið og endanlegar teikningar frá öllum hönnuðum liggja fyrir.

Þrátt fyrir breytingar og tafir hefur verkefnið þróast í jákvæða átt og er Drekadalur nú á góðri leið með að verða einstakur leikskóli sem býr yfir traustum grunni og spennandi umhverfi fyrir yngstu íbúa bæjarins.

Við óskum okkur öllum íbúum Reykjanesbæjar – og sérstaklega íbúum í þessu hverfi – innilega til hamingju með þetta glæsilega leiksvæði sem er nú formlega opið öllum.


Hægt er að skoða fleiri myndir á facebook síðu Reykjanesbæjar.