Verk eftir Línu Rut.
Verk eftir Línu Rut.

Listahátíðin List án landamæra var sett í Reykjavík þann 12. apríl sl. og er nú í fullum gangi. Hátíðin er einnig haldin víða um landið og á morgun hefst hátíðin á Suðurnesjum með fjölbreyttum viðburðum. Hátíðin er þar samstarfsverkefni sveitarfélaganna á Suðurnesjum en dagskrárviðburðir fara fram í Reykjanesbæ þanga sem flestir úr röðum fatlaðra sækja þjónustu sína.

Að sögn Guðlaugar Maríu Lewis verkefnastjóra hátíðarinnar eru spennandi viðburðir á dagskrá. Á morgun, sumardaginn fyrsta, verður opnunarhátíð í Bíósal Duushúsa. Þar opnar mjög spennandi samsýning myndlistarmannsins Línu Rutar Wilberg og sonar hennar Nóa Gunnarssonar. Lína Rut hafði lengi látið sig dreyma um að gera eitthvað skemmtilegt með verk sonar síns, sem er afkastamikill listamaður, og þegar tækifærið bauðst á List án landamæra hugsaði hún sig ekki tvisvar um.

Við sama tækifæri kemur annar sonur Línu Rutar fram, Már Gunnarsson, sem er í píanónámi og hefur jafnframt samið eigin tónlist. Hann dreymdi um að fá að vinna tónlist með Vilhelm Antoni Jónssyni og hefur sá draumur ræst. Við opnunina flytja þeir nýtt verk sem þeir hafa samið og verður aðeins um þennan eina flutning að ræða.

Guðlaug segir margt fleira spennandi á dagskránni til dæmis gríðarlega spennandi ljósmyndasýningu sem myndlistarmaðurinn Guðmundur R Lúðvíksson hefur unnið í samstarfi við 21 einstakling frá Hæfingarstöðinni og Björginni geðræktarmiðstöð. Um er að ræða mjög stórar myndir af einstaklingum í draumastarfinu sínu.

Þá setur leikhópurinn Bestu vinir í bænum upp sitt þriðja verk, Fangelsislífið, Geðveikt kaffihús verður á boðstólum og ýmislegt fleira.