Ljósahús og ljósagluggi

Jólahús barnanna.
Jólahús barnanna.

Ljósahús og ljósagluggi Reykjanesbæjar 2012

Val á Ljósahúsi Reykjanesbæjar hefur farið fram frá árinu 2000 og verið skemmtilegt krydd í tilveruna. Hversu margir hafa ekki tekið ljósarúntinn þegar niðurstöðurnar liggja fyrir og kíkt á húsin sem tilnefnd voru? Og þeim fjölgar stöðugt húsunum sem aðdáun vekja fyrir fallegar og smekklegar skreytingar.

Hafðu áhrif

Fram til þessa hefur sérstök „jólanefnd“ átt lokaorðið um val á Ljósahúsunum en íbúum gefist kostur á að senda in tillögur að húsum. Í ár hefur verið ákveðið að snúa dæminu við í samstarfi við Víkurfréttir. Nefndin tilnefnir 10 hús í bæjarfélaginu sem bæjarbúum gefst síðan kostur á að kjósa um með netkosningu og velja það hús sem í huga þeirra er Ljósahúsið.

Netkosning

Seinnipart sunnudagsins 9.desember fer nefndin á stjá og tekur myndir af húsum sem til greina koma. Íbúar sem stefna á að fá tilnefningu fyrir húsin sín verða því að vera búnir að skreyta þau þann 9. desember. Myndir af þeim 10 húsum sem komast í úrslit verða birtar í Víkurfréttum og á vf.is fimmtudaginn 13.desember. Opnað verður fyrir netkosninguna kl. 18:00 þann dag og henni lýkur kl. 24:00 sunnudaginn 16. desember.

Úrslit

Úrslitin verða svo kunngjörð mánudaginn 17. desember kl. 18:00 í Duushúsum og eru allir bæjarbúar velkomnir að vera viðstaddir. Húsið sem flest atkvæði fær verður Ljósahús Reykjanesbæjar 2012 en einnig verða veittar viðurkenningar fyrir húsin í 2. og 3. sæti. Til mikils er að vinna fyrir skreytingaglatt fólk því vinningar fyrir efstu þrjú sætin koma frá HS Orku/Veitum. Þá verða úrslitin birt í Víkurfréttum og á vf.is.

Jólaglugginn

Þá verður að venju einnig valinn Jólagluggi Reykjanesbæjar en valið á honum verður í höndum „jólanefndarinnar.“ Sú viðurkenning er veitt fyrir fallega skreyttan verslunarglugga. Ein viðurkenning verður veitt í þeim flokki við sama tækifæri og viðurkenningar fyrir Ljósahúsið.

Vertu með

Það er von þeirra sem að þessu verkefni standa, sem er Umhverfis- og skipulagssvið og menningarsvið Reykjanesbæjar í samstarfi við Víkurfréttir, að íbúar kunni vel að meta aukið íbúalýðræði, taki jólarúntinn snemma í ár og verði með í kosningunni.