Ljósanótt aflýst

Stýrihópur Ljósanætur ákvað á fundi sínum í morgun að aflýsa Ljósanótt 2021 sem til stóð að halda dagana 2.-5. september. Ákvörðunin er tekin í ljósi gildandi samkomutakmarkana og þeirrar stöðu sem faraldurinn er í um þessar mundir. Stýrihópurinn telur rétt að Reykjanesbær geri það sem í hans valdi stendur til að koma í veg fyrir óþarfa útbreiðslu veirunnar á meðan álag er mikið á heilbrigðisstofnanir og aðra grunnþjónustu líkt og raunin er.

Því verða engir viðburðir haldnir í nafni Ljósanætur í ár. Ljóst er að ákvörðunin hefur áhrif á fjölmarga aðila þar sem mikill undirbúningur hefur átt sér stað á síðustu vikum og mánuðum fyrir hátíðina, jafnt á vegum Reykjanesbæjar sem og fyrirtækja, félaga og einstaklinga. Stýrihópur færir öllum þessum aðilum ómældar þakkir fyrir þeirra mikilvæga framlag og hvetur þá sem og aðra íbúa bæjarins til að halda í bjartsýni og gleði eins og kostur er.

Sjálfsagt er að halda í heiðri þær fjölskylduhefðir sem skapast hafa í kringum í Ljósanótt, svo sem að borða saman súpu, fá sér göngutúr í bæinn, líta við í safnahúsin eða á aðrar listsýningar. Um leið eru allir hvattir til varkárni og að gæta vel að persónulegum sóttvörnum