Ljósanótt er sett með blöðrusleppingu grunnskólabarna.
Ljósanótt er sett með blöðrusleppingu grunnskólabarna.

Veðrið skartaði sínu allra fegursta þegar um 2.000 grunnskólabörn ásamt elstu börnum leikskólanna í Reykjanesbæ komu saman í 11. sinn til að setja 14. Ljósanæturhátíðina sem er nú formlega hafin.
Börnin komu fylktu liði íklædd skólalitunum með blöðru í hönd hvert úr sinni áttinni og sameinuðust fyrir framan elsta skólann í bænum, Myllubakkaskóla. Þar ávarpaði bæjarstjórinn, Árni Sigfússon, börnin og sagði m.a. að marglitu blöðrurnar væru tákn fyrir fjölbreytileikann í samfélaginu. Öll væru þau hluti af heild en samt einstök og fjölbreytt. Síðan tóku börnin undir í söng og sungu Meistari Jakob á fjórum tungumálum ásamt Ljósanæturlaginu sem hvert barn kann og söng af lífsins sálar kröftum. Það var áhrifamikil sjón að horfa á eftir blöðrunum 2.000 til himins og ekki frá því að framtíðin yrði áþreifanleg, hver einasta blaðra tákn um þá möguleika sem býr í hverju einasta barni sem þarna var statt. Er nokkuð fallegra?