Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Frá lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar
Frá lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin í DUUS húsum 13. mars sl. Þar kepptu tveir fulltrúar allra grunnskólanna í Reykjanesbæ og Sandgerði alls 14 nemendur. Keppendur lásu texta úr bók Þorgríms Þráinssonar, Ertu Guð,afi, ljóð eftir Erlu (Guðfinnu Þorsteinsdóttur) og ljóð að eigin vali. Lesturinn var glæsilegur að vanda enda keppendur vel undirbúnir. Tveir verðlaunahafar frá því í fyrra, Jón Ragnar Magnússon og Svanur Þór Mikaelsson, kynntu rithöfund og skáld keppninnar í ár.
Jóhanna Lilja Pálsdóttir úr Njarðvíkurskóla sigraði, Kristján Jón Bogason, Akurskóla varð í 2. sæti og Svava Rún Sigurðardóttir, Heiðarskóla varð í 3. sæti.
Hátíðarbragur var á lokahátíðinni. Nicole Korzemiacka, nemandi í 7. bekk Myllubakkaskóla flutti ljóð á pólsku sem fjallar um lestur og rím og nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fluttu tónlist. Hljómsveit  skipuð nemendum úr 7. bekk flutti frumsamda verkið Stærðfræði, eftir stjórnandann Áka Ásgeirsson og málmblásturstríó og strengjadúett léku tvö verk.
Litla upplestrarkeppnin er nú að festa sig í sessi í 4. bekk grunnskólanna á svæðinu og hafa tveir skólar þegar haldið lokahátíð þar sem nemendur lásu sögur og ljóð, einir sér eða í talkór. 
Styrktaraðilar keppninnar í ár eru Félag íslenskra bókaútgefenda, Íslandsbanki og Mjólkursamsalan.