Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar 24. mars

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fer fram í Bíósal Duus safnahúsa í dag, 24. mars, kl. 16:30. Alls 14 lesarar frá grunnskólunum í Reykjanesbæ og Grunnskóla Sandgerðis taka þátt í keppninni, tveir fulltrúar frá hverjum skóla. Milli upplestra verður boðið upp á tónlistaratriði og veitingar eru bornar fram í hléi.

Lokahátíðir í héraði marka lok Stóru upplestrarkeppninnar sem hefst í grunnskólum landsins á degi íslenskrar tungu ár hvert. Nemendurnir leggja mikla vinnu í þennan ræktunarhluta keppninnar og fá þjálfun í skólunum og heimavið. Hver skóli velur síðan tvo fulltrúa til að taka þátt í lokahátíðinni. Þrír nemendur eru síðan valdir af dómnefnd í jafnmörg verðlaunasæti og fá þau viðurkenningar og verðlaunafé.

Rithöfundar keppninnar í ár eru Guðrún Helgadóttir og Anton Helgi Jónsson og lesa þátttakendur texta eftir þau, ásamt ljóði að eigin vali, í þremur umferðum. Allir eru velkomnir á lokahátíðina.