Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Reykjanesbæ

Oddur Óðinn Birkisson, Rósa Kristín Jónsdóttir, Eydís Sól Friðriksdóttir
Oddur Óðinn Birkisson, Rósa Kristín Jónsdóttir, Eydís Sól Friðriksdóttir

Miðvikudaginn 6 . mars sl. fór lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Reykjanesbæ fram í Stapa í 27. sinn.

Það eru nemendur í 7. bekk úr grunnskólum Reykjanesbæjar sem taka þátt í keppninni ár hvert. Áður höfðu skólarnir haldið forkeppni og valið tvo fulltrúa hver. Fjórtán keppendur tóku því þátt að þessu sinni, tveir frá hverjum skóla. Stóra upplestrarkeppnin hefst formlega á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember ár hvert en það er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Fram að lokakeppni leggja nemendur og kennarar sérstaka áherslu á vandaðan upplestur og framsögn.

Það er óhætt að segja að keppendur hafi staðið sig með prýði og verið sjálfum sér og sínum skóla til mikils sóma. Dómnefndin var ekki öfundsverð af hlutskipti sínu að velja í verðlaunasæti enda sagði Guðbjörg Sveinsdóttir formaður dómnefndar áherslu á það að allir væru í raun og veru sigurvegarar þar sem hver og einn keppandi hefði sigrað í sínum skóla. Að sama skapi hvatti hún keppendur til þess að halda áfram að leggja rækt við þennan þátt móðurmálsins, vandaðan upplestur og framburð. Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs Reykjanesbæjar tók í sama streng og sagði jafnframt að það væri í raun alveg stór merkilegt að á hverju ári skuli heill árgangur í nær öllum, ef ekki öllum, grunnskólum landsins verja stórum hluta vetrarins í að æfa sig í flutningi íslensks máls. Helgi þakkaði Önnu Huldu Einarsdóttur kennsluráðgjafa á skrifstofu menntasviðs fyrir að hafa umsjón með Stóru upplestrarkeppninni og veg og vanda að undirbúningi þessarar glæsilegu hátíðar.

Sigurvegarar keppninnar í ár voru eftirfarandi:

 1. sæti var Rósa Kristín Jónsdóttir, Njarðvíkurskóli
 2. sæti var Oddur Óðinn Birkisson, Holtaskóli
 3. sæti var Eydís Sól Friðriksdóttir, Holtaskóli

Allir keppendurnir fengu bók og rós í viðurkenningarskyni en fyrstu þrjú sætin fengu einnig peningaverðlaun í boði Íslandsbanka.

Ómissandi þáttur þessarar hátíðlegu stundar er tónlistarflutningur nemenda Tónlistarskóla Reykjanesbæjar en flutt voru þrjú tónlistaratriði á hátíðinni. Í upphafi léku þeir Alex Helgason, Arnar Logi Róbertsson, Björgvin Orri Bragason, Einar Ernir Kristinsson, Kacper Nowak, Kolbeinn Magnússon Smith, Lúkas Jóhannesson, Róbert Örn Bjarnason, Sumarliði Brynjarsson og Vilhjálmur Ottó Lúðvíksson á gítar The Mupped Show theme eftir Jim Henson og Sam Pottleg. Eftir hlé lék Emelía Rós Ólafsdóttir á píanó Spring Storm eftir Melody Bober . Þegar dómnefnd vék úr salnum fengu gestir að njóta píanóleiks en það voru þeir Kristófer Emil Róbertsson og Kolbeinn Magnús Smith fjórhent á píanó lögin Bubblegum eftir Alfred og Kvöldsigling eftir Gísla Helgason.

Hafdís Inga Sveinsdóttir sigurvegari í Stóru upplestrarkeppninni frá fyrra ári kynnti skáld hátíðarinnar, Björk Jakobsdóttur. Jón Ingi Garðarsson einnig sigurvegari frá því í fyrra, kynnti ljóðskáld hátíðarinnar, Braga Valdimar Skúlason. Þá las Zain Abo Assaf nemandi í Háaleitisskóla ljóð á móðurmáli sínu, arabísku. Að lokum flutti Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs ávarp og afhenti bókagjafir.

Ástæða er til að þakka öllum upplesurum, tónlistarflytjendum, kennurum og foreldrum fyrir frábæran undirbúning sem skilaði sér í vönduðum og góðum flutningi fyrir fullum sal af áhorfendum.

Keppendur sem tóku þátt:

 • Andrea Ísold Jóhannsdóttir, Myllubakkaskóli
 • Anton Vyplel, Háaleitisskóli
 • Bríet Silfá Möller, Njarðvíkurskóli
 • Eydís Jóhannesdóttir, Akurskóli
 • Eydís Sól Friðriksdóttir, Holtaskóli
 • Gabríel Örn Ágústsson, Stapaskóli
 • Gunnlaugur Sturla Olsen, Heiðarskóli
 • Hildur Ósk Guðnadóttir, Stapaskóli
 • Indía Marý Bjarnadóttir, Heiðarskóli
 • Kristný Ósk Markúsdóttir, Háaleitisskóli
 • Lilja Valberg, Akurskóli
 • Maja Bykowska, Myllubakkaskóli
 • Oddur Óðinn Birkisson, Holtaskóli
 • Rósa Kristín Jónsdóttir, Njarðvíkurskóli

Nemendur TR og keppendur

Nemendur TR og keppendur.