Mikill áhugi á góðu starfi í leik og grunnskólum í Reykjanesbæ

Frá heimsókninni.
Frá heimsókninni.

Skólamenn úr Skagafirði fjölmenntu til Reykjanesbæjar í síðustu viku. Þar var á ferðinni hópur sérfræðinga af fræðsluskrifstofu Skagfirðinga og skólastjórnendur sem voru komnir til að kynna sér nýjungar og framfarir í skólastarfi, en eins og kunnugt er hafa miklar námslegar framfarir orðið í leik og grunnskólum Reykjanesbæjar.
Keilir og grunnskólar Reykjanesbæjar eru í fararbroddi hvað varðar innleiðingu speglaðrar kennslu og kennsluaðferða 21. aldar.

Skagfirðingarnir heimsóttu því Keili, leikskólann Heiðarsel og Myllubakkaskóla til að kynna sér starf kennara og fengu kynningu á framtíðarsýn Reykjanesbæjar. Skagfirðingar eru líkt og alþjóð veit menningarlega sinnaðir og hafa mikinn áhuga á listum og sögu, þeir heimsóttu því listakonuna Sossu og fengu fræðslu um sögu svæðisins hjá fræðslustjóra Gylfa Jóni Gylfasyni sem sagði ánægjulegt að þá þessa góðu gesti og geta kynnt fyrir þeim vandað starf leik og grunnskólakennara á Reykjanesi.