Mikilvægt að skapa áhuga og finna réttu bækurnar

Hermundur Sigmundsson hélt erindi um læsi í Íþróttaakademíunni fyrir skemmstu.
Hermundur Sigmundsson hélt erindi um læsi í Íþróttaakademíunni fyrir skemmstu.

Hermundur Sigmundsson prófessor frá Háskólanum í Þrándheimi í Noregi hélt nýverið erindi um læsi fyrir skólafólk í Reykjanesbæ. Í máli Hermundar kom fram að finna þurfi leiðir til að hjálpa öllum nemendum við að ná árangri í lestri. Þar þurfi samfélagið allt að koma að, ekki bara kennarar og skólarnir, heldur einnig foreldrar og þjónusta sveitarfélagsins. Hann ræddi m.a. þátt bókasafna í bættri lestrarfærni barna.

Fræðsluskrifstofa Reykjanesbæjar bauð til erindisins lykilstarfsfólki úr skólakerfinu og menntastofnunum bæjarins. Hermundur fór m.a. yfir niðurstöður PISA könnunar sem sýna að drengir eiga í erfiðleikum með lestur og hafa minni áhuga en stúlkur. Meðal þess sem kom fram í máli Hermundar var að minna væri talað við drengi en stúlkur allt frá fæðingu sem gerir það að verkum að strákar babla minna við 10 mánaða aldur en stúlkur. Þá sýni kannanir að aðeins 11% drengja kunni að lesa í byrjun 1. bekkjar grunnskóla en 70% stúlkna. Af þeim 27% sem ekki kunna að lesa í lok 1. bekkjar eru 70% drengir. Drengir hafi minni áhuga fyrir lestri og þeir lesi minna. 

Hermundur ræddi um lestrarþjálfun barna og hvernig allir þeir sem að barninu koma þyrftu að taka þátt. Skólarnir og heimilin spili þar lykilhlutverk, en ekki síður sveitarfélögin með því að bjóða upp á góðan bókakost í bókasöfnum jafnt almennings- sem skólasöfnum. Með því móti megi finna réttu bækurnar og skapa aukinn áhuga á lestri.

Hér má sjá hópinn sem hlýddi á fyrirlestur Hermundar