Nafnasamkeppni vegna nýs skóla í Dalshverfi

Mynd úr kynningu Arkís á nýjum skóla í Dalshverfi.
Mynd úr kynningu Arkís á nýjum skóla í Dalshverfi.

Samkeppni um nafn á nýjan skóla í Dalshverfi er nú hafin . Nafnasamkeppnin er opin öllum og eru íbúar, skólafólk, börn og ungmenni hvött til að taka þátt í samkeppninni. Keppnin er rafræn og má nálgast hér.  Frestur til að skila inn tillögum er mánudagurinn 16. október 2017.

Fræðsluráð Reykjanesbæjar samþykkti á 305. fundi sínum þann 29. september 2017 að efna til nafnasamkeppni vegna nýs skóla í Dalshverfi. Sá eða þeir aðilar sem eiga vinningstillöguna verða boðaðir til þess viðburðar þegar fyrsta skóflustunga verður tekin fyrir nýjum skóla og hljóta viðurkenningu fyrir nafnið. Könnunina er einnig hægt að nálgast gegnum vef Reykjanesbæjar.

Fram kemur í skýrslu undirbúningshóps að nýi skólinn verður heildstæður, leikskóli, grunnskóli, tónlistarskóli, frístundaskóli og félagsmiðstöð. Skólinn sem staðsettur er í jaðri bæjarins á jafnframt að geta þjónað grenndarsamfélaginu sem einskonar menningarmiðstöð. Ennfremur verður lögð áhersla á öflugt foreldrastarf, náin tengsl við nánasta umhverfi, sjóinn, móann og útinámi verður gert hátt undir höfði. Þá verður lögð sérstök áhersla á sköpun og listir.