Nettómót í 25 ár

Reykjanesbær er íþróttabær
Reykjanesbær er íþróttabær

Reykjanesbær mun fyllast af ungum körfuknattleiksiðkendum um helgina, en þá fer fram hið árlega stórmót í íþróttinni, Nettómótið. Mótið í ár verður afmælismót því 25 ár eru liðin frá því fyrsta mótið var haldið í bænum. Auk Nettó er Reykjanesbær einn af stærstu styrktaraðilum mótsins.

Nettómótið er stærsta körfuknattleiksmót á Íslandi og sökum þess hversu mótið hefur vaxið að umfangi á síðustu árum er það nú fyrir iðkendur 10 ára og yngri, bæði stúlkur og drengi. Auk þess að etja kappi hvert við annað er líka séð til þess að allir hafi gaman og hópandinn sé efldur með samverustundum á borð við bíóferð í Sambíóin, heimsókn í Innileikjagarðinn, sundferð í Vatnaveröld, sprikl í Reykjaneshöllinni og sameiginlegar máltíðir. 191 lið keppa í ár.

Slíkt stórmót er ekki hægt að halda nema margir komi að undirbúningi og framkvæmd. Það eru unglingaráðin í Keflavík og Njarðvík sem standa að framkvæmdinni en bæði þjálfarar og foreldrar aðstoða, enda keppnissvæði mörg sem og samverustaðir.