Njarðvíkurskóli hefur unnið stuttmyndakeppni Sexunnar 2025 með myndinni Áhrif eineltis. Sexan er árlegt jafningjafræðsluverkefni, á vegum Neyðarlínunnar og fjölmargra samstarfsaðila, sem miðar að því að fræða ungt fólk um birtingarmyndir stafræns ofbeldis ásamt öðrum málefnum sem snerta ungmenni í dag. Í keppninni tóku fjölmargir skólar þátt og er sigur Njarðvíkurskóla einstaklega glæsilegur árangur sem við erum ótrúlega stolt af.
Við hjá Reykjanesbæ viljum óska nemendum og starfsfólki Njarðvíkurskóla innilega til hamingju með þetta frábæra verkefni. Það gleður okkur að sjá ungt fólk sýna frumkvæði, samkennd og metnað þegar kemur að jafn mikilvægum málum og stafrænu ofbeldi.
Sigurmyndin Áhrif eineltis verður sýnd á Barnakvikmyndahátíð í Bíó Paradís í haust. Myndin verður einnig aðgengileg í spilara KrakkaRÚV, á YouTube Neyðarlínunnar og send í alla grunnskóla landsins sem fræðsluefni.
Við hvetjum alla til að kynna sér stuttmyndir Sexunnar á www.112.is/sexan