Norræn ungmenni keppa í golfi á árlegu vinabæjamóti

Keppendur, þjálfarar og fylgdarlið við setningu vinabæjamótsins í Íþróttaakademíuna í  morgun.
Keppendur, þjálfarar og fylgdarlið við setningu vinabæjamótsins í Íþróttaakademíuna í morgun.

Vinabæjamót í íþróttum var sett í Reykjanesbæ í morgun. Á mótinu keppa börn og ungmenni frá vinabæjum Reykjanesbæjar, Kristiansand í Noregi, Trollhättan í Svíþjóð og Kerava í Finnlandi, auk bæjarbúa. Keppnisíþrótt í ár er golf.

Vinabæjamót í íþróttum, Nordic twin cities meetings, hafa verið haldin árlega frá árinu 1973. Vinabæjaþjóðirnar skiptast á að halda mótin og nú er röðin komin að Reykjanesbæ. Keppt er í mismunandi greinum ár hvert og varð golf fyrir valinu þetta árið. Að sögn Hafþórs Birgissonar íþrótta- og tómstundafulltrúa vill bærinn styðja við þær greinar þar sem byggja þarf upp barna- og unglingastarf eða þar sem félögin eru í þeirri uppbyggingu eins og raunin er hjá Golfklúbbi Suðurnesja.
Eftir setningu í morgun var haldið í Leiruna til æfinga en sjálf keppnin verður á morgun. Um er að ræða punktamót þar sem keppendum verður skipt eftir forgjöf. Vinabæjamótinu verður formlega slitið á fimmtudagskvöld og á föstudagsmorgun halda gestirnir úr landi, 26 keppendur og 7 þjálfarar og fylgdarmenn. Frá Reykjanesbæ keppa 10 ungmenni.

Vinabæirnir skiptast á að halda mótin árlega. Síðast var mót í Reykjanesbæ fyrir fimm árum síðan en Hjörring í Danmörku hefur í millitíðinni dregið sig út úr vinabæjasamstarfinu. Þjóðirnar fjórar munu því eftirleiðis halda mót á fjögurra ára fresti.