Nú nálgast óðum Ljósanótt !

Blöðrur á leið uppi í loft
Blöðrur á leið uppi í loft

Hér á bæ er allt komið á fullt við undirbúning Ljósanæturhátíðarinnar sem haldin verður hátíðleg 30. ágúst - 2. september.  Að venju verður mikið um dýrðir og eins og alltaf eru það íbúarnir sjálfir sem bera uppi stóran hluta dagskrárinnar með fjölbreyttum uppákomum eins og myndlistarsýningum, tónleikum og ýmsu öðru. 

Ekki verðum við svikin af tónlistarviðburðum þessarar hátíðar en á sviðinu munu koma fram margir af eftirsóttustu tónlistarmönnum landsins svo sem Nýdönsk, Blár Ópall, Retro Stefson, Eldar, Moses Hightower, Tilbury, Jónas Sig. og ritvélar framtíðarinnar. Einnig verður boðið upp á sérstakt Ellý og Vilhjálmur Tribute með þeim Valdimar Guðmundssyni, Ragnheiði Gröndal, Sigurði Guðmundssyni og Sigríði Thorlacius. Á laugardag verður samfelld tónleikadagskrá í Duushúsum.

Sýningin Gærur, glimmer og gaddavír fjallar um tónlist og tíðaranda áratugarins 1970 -1980 og er framhald af Með blik í auga sem sló í gegn á síðustu Ljósanótt en þá var fjallað um áratugina 1950 - 1970. Stemmningin verður rifjuð upp í glæsilegri umgjörð þar sem m.a. verður flutt tónlist eftir Magnús og Jóhann, Brimkló, Stuðmenn, Mána og ýmsa fleiri.  Hver man ekki eftir sjónvarpslausum fimmtudagskvöldum og útvarpsleikritunum á gufunni þegar hringvegurinn var málið, Spur og Miranda var drukkið í sjoppunum og saxbauti var í kvöldmatinn ?  Flutningur er allur í höndum heimamanna.

Myndlistarsýningar verða ótal margar víðs vegar um bæinn og opna þær langflestar á fimmtudagskvöld.  Þá verður einmitt opnuð samsýning listamanna á Suðurnesjum í Listasafni Reykjanesbæjar í Duushúsum.

Nóg verður í boði fyrir börnin. Sprell leiktæki verða á sínum stað, Skessan býður í lummur, fjölskyldudagskrá verður á stóra sviðinu allan laugardaginn og fjölmargt annað í boði. 

Fastir liðir sem gera hátíðina einstaka gleymast ekki, árgangagangan, kjötsúpa, harmonikkuball og sagnakvöld að ógleymdri flugeldasýningunni sem er punkturinn yfir i-ið á hátíðarhöldum Ljósanætur.  

Það eru því spennandi dagar í vændum. 

Láttu sjá þig á Ljósanótt!

http://ljosanott.is/