Ný sundlaug opnar í Reykjanesbæ – Nútímalegt húsnæði og einstök aðstaða fyrir bæjarbúa

Öll eru hjartanlega velkomin á opnun nýrrar sundlaugar í Stapaskóla sem fer fram á morgun, föstudaginn 20. júní kl. 16:00.

Ný og glæsileg sundlaug opnar nú formlega í Reykjanesbæ og markar hún tímamót í uppbyggingu íþróttamannvirkja bæjarins. Nýja sundlaugin, sem staðsett er við hlið Ice Mar hallarinnar í Stapaskóla sem tekin var í notkun síðasta vetur, býður upp á fjölbreytta og nútímalega aðstöðu sem höfðar til allra aldurshópa.

Aðstaðan samanstendur af 25 metra innisundlaug sem hentar jafnt til íþróttaiðkunar sem og almennrar sundiðkunar. Utandyra er rúmgott pottasvæði þar sem finna má bæði heita og kalda potta. Pottasvæðið snýr til suðurs þannig þar er einnig hægt að sóla sig. Við pottasvæðið er svo gufubað og infrarauður klefi hluti af húsnæðinu og stuðla þau að bættri heilsu og vellíðan gesta.

Húsnæðið, sem er að grunnfleti um 1.455 fermetrar, er hannað með nýjustu kröfum um bæði notendavæni og orkunýtni. Allt tæknirými hússins er á jarðhæð en sundlaugarsvæðið er á efri hæð og nýtir dagsbirtu til fulls. Það býður upp á glæsilegt útsýni bæði til norðurs og suðurs og skapar þannig einstaklega bjart og opið andrúmsloft fyrir gesti.

„Við erum afar stolt af þessari viðbót við íþróttamannvirki bæjarins. Þetta er ekki aðeins sundlaug, heldur heilsulind sem mun þjóna bæði íbúum og gestum Reykjanesbæjar um ókomin ár,“ segir Guðlaugur H. Sigurjónsson, Sviðsstjóri Umhverfissviðs Reykjanesbæjar. 

Dagskrá opnunar – föstudaginn 20. júní kl. 16:00

  • Bæjarstjóri flytur ávarp 

  • Klippt verður á borða og börn stökkva fyrst í laugina 

  • Kaffi, djús og kaka verða í boði fyrir gesti

  • Sundlaugin opnar fyrir almenning kl. 17:00 og verður opin til 21:30.

Opnunartími í sumar:

Virka daga er 13:00 – 21:30
Helgaropnun 9:00 - 1800