Nýtt varðveisluhúsnæði í Reykjanesbæ

Samningar voru undirritaðir um nýtt varðveisluhúsnæði við Flugvallarbraut 710 á Ásbrú sem mun umbylta aðstöðu safna Reykjanesbæjar til hins betra. Þar verða varðveittir munir og gögn frá byggðasafni-, listasafni-, skjalasafni- og bókasafni Reykjanesbæjar ásamt öðrum menningartengdum munum. Þegar húsið hefur verið innréttað verður þar nútímaleg og fagleg aðstaða til að varðveita, vinna með og rannsaka safnkost. Um er að ræða dýrmætt safn af munum en söfn Reykjanesbæjar hafa að geyma menningarsöguleg verðmæti m.a. málverk eftir Kjarval og Gunnlaug Blöndal ásamt fánanum sem flaggað var við stofnun lýðveldisins á Þingvöllum árið 1944 og var eftir það dreginn að húni í Keflavík um áratuga skeið. Góð varðveislu- og vinnuaðstaða gerir söfnunum kleift að styrkja grunnstarfsemi sína en hún er lykillinn að því að hægt sé að miðla því sem þau hafa að geyma til almennings – og í þágu almennings.