Aðventugarðurinn opnar 3. desember

Nú hafa ljósin logað í fallega Aðventugarðinum okkar um nokkurra daga skeið og lýst upp svartasta skammdegið. Á laugardaginn, 3. desember, opnar garðurinn með skemmtilegri jóladagskrá og sölu á jólalegum varningi og kræsingum í jólakofunum.

Garðurinn verður opinn alla laugardaga og sunnudaga í desember frá kl. 14-18 og á Þorláksmessu frá kl. 18-21 og þar geta íbúar og gestir átt saman notalegar stundir í aðdraganda jóla.

Loksins tímasett dagskrá

Ef hægt er að segja að heimsfaraldurinn hafi leitt af sér eitthvað jákvætt má með sanni segja að Aðventugarðurinn sé eitt af því. Hann var settur á laggirnar í miðjum faraldri þar sem fjárhagslegt svigrúm skapaðist vegna viðburða sem hafði þurft að aflýsa. Vegna samkomutakmarkana var einungis um ótímasetta „pop-up“ viðburði að ræða og því happa og glappa hvort fólk hitti á þá. Nú getum við loks boðið upp á tímasetta dagskrá í garðinum og því engin ástæða til að missa af neinu. Alla laugardaga og sunnudaga verður lifandi dagskrá í garðinum og verður hún auglýst í Víkurfréttum og á vefsíðunni Visitreykjanesbaer.is sem og á öðrum miðlum Reykjanesbæjar.

 

Ljósin tendruð á jólatrénu

Á fyrsta opnunardegi garðsins, nú á laugardag, verða ljósin tendruð á jólatrénu í Aðventugarðinum kl. 14:30. Það eru synir Grýlu og Leppalúða, sjálfir jólasveinarnir sem ætla að gera það eins og þeim er einum lagið. Það er upplagt að hefja daginn með því að taka þátt í Aðventugöngu sem hefst og endar í garðinum og vera svo viðstödd þegar ljósin á jólatrénu verða kveikt. Jólakofarnir verða á sínum stað og þar er hægt að festa kaup á skemmtilegum varningi, heitu súkkulaði og fleiru.

Aðventusvellið opnar

Aðventusvellið sem opnaði í fyrra verður á sínum stað og þar gefst fjölskyldum einstakt tækifæri til að upplifa saman gleðilegar stundir með hressandi útivist og hreyfingu. Alltaf verður opið á svellinu þegar opið er í Aðventugarðinum og á ýmsum öðrum tíma einnig. Upplýsingar um opnunartíma og bókanir eru á adventusvellid.is

Best skreytta húsið og gatan

Fljótlega verður kynntur léttur leikur þar sem fólk getur sent inn tillögur að best skreyttu húsum bæjarins og verður fyrirkomulag hans kynnt á næstu dögum. Eru allir hvattir til að taka þátt í þessu skemmtilega uppátæki sem er fyrst og fremst til gamans gert en mikið er af fallega skreyttum húsum og götum í bænum og um að gera að taka rúnt og skoða skreytingarnar.

Það er fjölbreytt jóladagskrá í boði í stofnunum Reykjanesbæjar og eru íbúar hvattir til að njóta alls þess sem boðið er upp á í bænum okkar á aðventunni. Alla dagskrá er að finna á visitreykjanesbaer.is