Hoppað á loftdýnu við 88 húsið.
Hoppað á loftdýnu við 88 húsið.

Í gær, á Sumardaginn fyrsta , var Ungmennagarður við 88 húsið og Fjörheima opnaður formlega. Garðurinn er afrakstur hugmyndavinnu hjá Ungmennaráði Reykjanesbæjar sem hvatti bæjaryfirvöld til að setja upp leiktæki og margs konar afþreyingu fyrir ungmenni. Vel var tekið í þessar hugmyndir unga fólksins af Árna Sigfússyni bæjarstjóra og fjölmörgum hugmyndum og útfærslum velt upp á milli Ungmennaráðsins og fulltrúum frá Reykjanesbæ.

Hafist var handa á síðasta ári við að gera skjólgarð úr stórgrýti sem kom frá Helguvík og fyrsta leiktækið sem sett var upp var svokallaður ærslabelgur. Hann hefur notið gríðarlegra vinsælda og er nánast í stanslausri notkun frá morgni til kvölds. Síðan eru komin margvísleg leiktæki s.s. netboltasvæði, mini golfbrautir, aparóla, hjólastólaróla sem er sú fyrsta sinnar tegundar á landinu. Nýtt útisvið var sett upp og steinum raðað upp gegnt því sem notast sem áhorfendasvæði. Girðing var hækkuð við Njarðargötu til að mynda enn betra skjóla í garðinum.  Frá varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli ( nú Ásbrú ) voru fengnir nokkrir gamlir tréljósastaurar og gamalt gervigras úr Reykjaneshöll er víða notað í garðinum. Þannig hefur verið lögð áhersla á endurnýtingu og hagkvæmni við lausnir. Annað dæmi um einfaldar og skemmtilegar lausnir er að mála litríka depla í malbikið sem fyrir var.  Áfram verður haldið við uppbyggingu Ungmennagarðsins og stuðst við hugmyndir Ungmennaráðsins.

Á næstu vikum verða t.d. settar upp stórar myndir af ungmennum frá Reykjanesbæ og  margvíslegir leikir málaðir á malbikið.
Í einum hluta garðsins hefur verið gerður sérstakur lundur en það var eitt af áhersluatriðum Ungmennaráðs að minnast ungs fólks frá Reykjanesbæ sem var á aldrinum 13-25 ára þegar það kvaddi þennan heim. Þessi minningalundur var sérstaklega vígður klukkustund áður en Ungmennagarðurinn var formlega opnaður að viðstöddum foreldrum, ættingjum og vinum hinna látnu ungmenna. Að þessu sinni voru sex minningaplattar afhjúpaðir, en næsta sambærileg athöfn mun fara fram í byrjun september.  

Íþrótta –og tómstundasvið og Ungmennaráð Reykjanesbæjar þakka öllum aðstoðuðu við að gera þennan draum um Ungmennagarð að veruleika.