Orkuverið Jörð opið á Safnahelgi á Suðurnesjum 13. - 14. mars

Frá Orkuverinu Jörð
Frá Orkuverinu Jörð


Sýningin Orkuverið Jörð sem fjallar um 10 helstu orkugjafa jarðarinnar verður opin á Safnahelgi á Suðurnesjum sem fram fer nú um helgina.
Sýningin rekur sögu orkunnar frá Miklahvelli að virkjun jarðhita á Reykjanesi en hún er staðsett í stöðvarhúsi Reykjanesvirkjunar HS orku á Reykjanesi.

Sýningin er skemmtileg fyrir börn en þar geta þau spreytt sig á hinum ýmsu orkuþrautum og m.a. prófað jarðskjálftahermi til að upplifa jarðskjálfta á ýmsum richterstigum.

Hönnun og hugmyndafræði sýningarinnar gengur út frá stóra hvelli og upphafi sólkerfisins allt aftur til okkar tíma. Farið er meðal annars í gegnum uppfinningar sem breytt hafa lífi okkar til þess vegar sem það er í dag en það ætti að vera okkur öllum ljóst hversu mikilvægur þáttur orkan er í lífi okkar. Fjallað verður um mismunandi orkunýtingu á jörðinni og hvaða möguleika við höfum á orkunýtingu bæði hér heima á Íslandi sem og annars staðar í heiminum. Nokkur sýnishorn eru á staðnum en segja má að jarðvarmavirkjunin sjálf sé eitt það stærsta. Sýningin er að nokkrum hluta gagnvirk og geta gestir því tekið virkan þátt í henni.

Opið verður laugardag og sunnudag frá kl. 13:00 - 15:30.

Með því að smella á þennan tengil opnast vefur Orkuversins Jarðar