Ótrúlegur fjöldi Íslandsmeistara í Reykjanesbæ

Verðlaunahafar.
Verðlaunahafar.

Í tilefni þess að Reykjanesbær á 20 ára afmæli á þessu ári, nánar tiltekið þann 11. júní, hafa hin ýmsu svið bæjarins verið að taka saman tölulegar upplýsingar. Íþrótta- og tómstundasvið hefur undanfarin 10 ár í góðu samstarfi við Íþróttabandalag Reykjanesbæjar (ÍRB) staðið fyrir glæsilegri uppskeruhátíð þann 31. desember. Þá koma saman þeir sem hafa verið tilnefndir sem besti íþróttamaðurinn ár hvert í þeim íþróttagreinum sem stundaðar eru innan vébanda ÍRB. Sú hefð hefur skapast að Reykjanesbær heiðrar á þessari hátíð alla þá sem hlotið hafa Íslandsmeistaratitil á árinu sem er að líða. Sérhver Íslandsmeistari fær gullpening um hálsinn með áletruninni Til hamingju Íslandsmeistari.
Á síðustu hátíð voru öll fyrri met slegin varðandi fjölda einstaklinga sem náð hafði þessum árangri eða alls 269 Íslandsmeistarar. Í þau tíu ár sem þessi hátíð hefur verið haldin er samanlagður fjöldi Íslandsmeistara tæplega 2000  og gera má ráð fyrir því að á síðustu 20 árum sé fjöldinn hátt í 4000. Flestir Íslandsmeistararnir koma frá  körfuknattleiksdeildum UMFN og Keflavíkur og  sundfólkið okkar er líka mjög öflugt. Segja má að á þessum 20 árum hafi náðst Íslandsmeistaratitill í nánast öllum þeim íþróttagreinum sem stundaðar eru innan ÍRB. Þá eru ótaldir allir bikarmeistaratitlarnir, en þeir skipta hundruðum. Ekki ólíklegt að Íslandsmeistaratitlunum muni fjölga, ef marka má þann árangur sem þegar hefur náðst á árinu t.d. í yngri flokkum körfuboltans.