Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi vegna landriss vestan við fjallið Þorbjörn. Ljósm. …
Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi vegna landriss vestan við fjallið Þorbjörn. Ljósm. Víkurfréttir

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi Almannavarna í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum vegna landriss vestan við fjallið Þorbjörn á Reykjanesi. Var það gert hinn 26. janúar síðastliðinn.

Á fundi sem haldinn var í gær með bæjarstjóra, slökkviliðsstjóra, lögreglustjóra og sviðsstjóra umhverfissviðs Reykjanesbæjar var farið yfir stöðuna sem fylgir óvissustigi vegna landriss við Þorbjörn og þau áhrif sem kunna að fylgja því í Reykjanesbæ. 
Hópurinn fylgist vel með þeim upplýsingum sem berast reglulega frá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, en þær byggjast á mati vísindaráðs almannavarna.

Meðan enn er óljóst hvert framhald þeirra umbrota verður sem hafa verið greind við Þorbjarnarfell er ekki talið nauðsynlegt að grípa til sérstakra aðgerða í Reykjanesbæ, en sem fyrr segir er mjög vel fylgst með stöðu mála.

Í pistli Ásgeirs Eiríkssonar, bæjarstjóra í Vogum, koma fram ítarlegri upplýsingar um málið. Með því að smella hér má skoða pistilinn.

Ríkislögreglustjóri hefur einnig lýst yfir óvissustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveiru (2019-nCoV). Ekkert smit hefur verið staðfest á Íslandi. Sóttvarnalæknir leggur mikla áherslu á smitgát, en handþvottur er mjög mikilvægur til þess að forðast smit.

Fylgst er vel með þróun mála og er almenningi bent á að fylgjast með henni í báðum tilvikum á vef Almannavarna.

Með því að smella hér opnast vefur Almannavarna.