Reykjanesbær fékk góða gesti í heimsókn í gær þegar Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ásamt starfsfólki beggja ráðuneyta, heimsóttu okkur og kynntu sér verklag og áskoranir Reykjanesbæjar við móttöku flóttafólks og hælisleitenda.

Um leið var skrifað undir nýjan samning um samræmda móttöku flóttafólks eins og flest stærri sveitarfélög landsins hafa þegar gert eða ætla að gera. Ekki er um að ræða 350 nýja flóttamenn, heldur stuðning við allt að 350 einstaklinga og fjölskyldur sem á hverjum tíma eru hér búsettir, hafa fengið vernd og eru með lögheimili í Reykjanesbæ.

Með samræmdu móttökunni er verið að veita þeim sérstakan stuðning svo þau nái betur að fóta sig í íslensku samfélagi eða aðstoða þá við að flytja sig um set hér innanlands óski þeir þess. Samningurinn felur í sér að allur kostnaður við samræmda móttöku er greiddur af íslenska ríkinu.

Með samræmdu móttökunni er verið að veita þeim sérstakan stuðning svo þau nái betur að fóta sig í íslensku samfélagi eða aðstoða þá við að flytja sig um set hér innanlands óski þeir þess. Samningurinn felur í sér að allur kostnaður við samræmda móttöku er greiddur af íslenska ríkinu.

Reykjanesbær hefur, frá árinu 2004, axlað þá samfélagslegu ábyrgð sem snýr að móttöku fólks á flótta. Í upphafi réði nálægð við alþjóðaflugvöll miklu um staðsetningu verkefnisins. Með vaxandi fjölda hafa fleiri sveitarfélög ákveðið að gera slíkt hið sama og í kjölfar stríðsins í Úkraínu varð algjör sprenging í fjölda fólks á flótta.

Það er mikil uppsöfnuð þekking og reynsla í þessum málum hjá Reykjanesbæ sem mikilvægt er að nýta áfram. Reykjanesbær er tilbúinn að deila þessari þekkingu með öllum þeim sveitarfélögum sem ætla að taka þátt í þessu samfélagslega mikilvæga verkefni.

Nýjar áherslur hafa verið lagðar í málaflokknum og enn frekari vinnsla í þessum málaflokki framundan. í ljósi nýrra áherslna og aukins samstarfs ríkis og sveitarfélaga um samræmda móttöku flóttafólks, var ákveðið að gera nýjan samning milli Reykjanesbæjar og félags-og vinnumarkaðsráðuneytisins. Reykjanesbær hvetur öll sveitarfélög til að sýna samfélagslega ábyrgð og taka þátt í móttöku fólks á flótta.